Meira en 10% kjósenda á meðmælendalistum

Tíu framboð hafa skilað inn fullgildum skjölum fyrir Alþingiskosningarnar 25. september. Ríflega 10% kjósenda eru á meðmælendalistum þeirra.

Yfirkjörstjórn kjördæmisins hefur móttekið skjöl framboðanna og yfirfarið þau. Í samtali við Austurfrétt í morgun staðfesti Gestur Jónsson, formaður kjörstjórnar, að framboðin væru öll gild.

Framboðin eru frá Framsóknarflokki, Viðreisn, Sjálfstæðisflokki, Flokki fólksins, Sósíalistaflokknum, Miðflokknum, Frjálslynda lýðræðisflokknum, Pírötum, Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Eitt framboð enn, Ábyrg framtíð, hefur fengið úthlutað listabókstaf hjá landskjörstjórn en ekki sent inn nein gögn til yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis. Frestur til þess rennur út á hádegi.

Önnur framboð skiluðu sínum gögnum flest í fyrradag. Breyting var gerð í gær á lista Frjálslynda lýðræðisflokksins eftir að Austurfrétt greindi frá því að sami frambjóðandinn væri þar og á lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi. Fór svo að hann vék af báðum listum.

Framboðin þurfa að skila listum með nöfnum að minnsta kosti 300 meðmælenda, að hámarki 400. Flest hafa ríflega 300 nöfn til öryggis. Skilyrði er að meðmælandi hafi lögheimili í kjördæminu og má hver aðeins mæla með einu kjördæmi.

Alls eru 3611 nöfn á meðmælendalistum í kjördæmi sem eru tæplega 12% væntanlegra kjósenda, en reiknað er með að um 30.000 manns verði á kjörskrá.

Sveitarfélög eiga að staðfesta kjörskrár fyrir 15. september. Sama dag rennur út frestur landskjörstjórnar til að auglýsa framboðslista.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.