Meintir innbrotsþjófar enn ófundnir

Lögreglan á Austurlandi hefur ekki enn haft á aðilum sem grunaðir eru um að hafa haft í hyggju að fara inn í mannlaus hús á svæðinu í gær þrátt fyrir mikla leit. Lögreglan hefur hins vegar gefið út lýsingu á mönnunum. Í nógu var að snúast hjá lögreglunni um síðustu helgi.

Staðfest er að mennirnir voru á ferðinni í Neskaupstað og á Eskifirði í gær og náðu að stela fjármunum úr húsi á síðarnefnda staðnum.

Þar var að verki karlmaður á fertugsaldri. Hann er talinn um 180 sm á hæð, með dökkt, vel snyrt skegg, brúnan bakpoka og í léttum, dökkum jakka. Hann talaði ensku en virtist ekki hafa hana að móðurmáli.

Lögreglan fékk lýsingu á öðrum manni sem bankaði upp á hjá fólki á svæðinu á sama aldri, meðalmaður á hæð í bláum regnjakka með bláleitan bakpoka.

Fregnir af mönnunum hafa einnig borist frá bæði Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði. Samkvæmt upplýsingum sem Austurfrétt fékk frá lögreglunni í morgun hafði ekki tekist að hafa upp á mönnunum.

Fregnir af þjófagengjum sem fara inn í ólæst hús hafa borist víðar af landinu í sumar. Þjófarnir fara gjarnan inn að degi til þegar fólk er að heiman í vinnu.Lögreglan vill beina þeim tilmælum til fólks að ef það verður vart við grunsamlegar mannaferðir að láta lögreglu strax vita með því að hringja í 112.

Ölvaður ökumaður ógnaði vegfarendum í Neskaupstað

Utan frétta af þjófagengjum hefur verið nóg um að vera hjá lögreglunni undanfarna daga. Austurfrétt hefur áður greint frá manni sem velti bíl sínum skammt neðan við Neðri-Staf á Fjarðarheiði á föstudag.

Þegar lögregla kom á staðinn var meintur ökumaður horfinn og nýtti flygildi til að hafa uppi á honum úti í móa, nokkuð frá vettvangi. Hann var talsvert ölvaður.

Þá var maður fluttur fluttur á sjúkrahús eftir alvarlega líkamsárás á Seyðisfirði en hann varð fyrir þungu höfuðhöggi. Árásarmanninum var sleppt að lokinni yfirheyrslu. Þeir þekkjast en tengjast lítið, samkvæmt frétt Vísis frá í gær.

Íbúar í Neskaupstað vöknuðu margir við sírenuvæl aðfaranótt sunnudags. Ölvaður ökumaður undir bílprófsaldri hafði stolið bifreið úr öðru bæjarfélagi og keyrt til bæjarins. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu heldur ók á ofsahraða í gegnum bæinn þar sem fólk var á ferli við skemmtistaði þannig að mikil hætta skapaðist.

Eftirförin endaði þegar ástand bifreiðarinnar var orðið þannig að hún var orðin óökuhæf og ökumaðurinn stökk út úr henni á ferð í miðbænum í Neskaupsstað. Mannlaus bifreiðin var stöðvuð með því að aka lögreglubifreið í veg fyrir hana. Lögregla hafði svo hendur í hári ökumannsins stuttu síðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar