
Meðalhitinn á Teigarhorni hækkað um tvær gráður frá upphafi mælinga
Meðalhitastig á Teigarhorni í Berufirði hefur hækkað um tvær gráður frá því reglubundnar veðurmælingar hófust þar fyrir 150 árum síðan.Þetta kom fram í máli Kristínar Bjargar Ólafsdóttur, sérfræðings frá Veðurstofu Íslands, á hádegisfyrirlestri sem haldinn var í Löngubúð í Djúpavogi í síðustu viku þar sem 150 árunum var fagnað.
Þá benti hún á að þrjú af hlýjustu sumrunum væru nýafstaðin, 2014, 2016 og 2017. Fara þarf duglega aftur í tímann til að finna þau köldustu sem voru 1881, 1887, 1888 og 1892. Af fimm hlýjustu sumrum sem mælst hafa eru fjögur þeirra eftir síðustu aldamót.
Teigarhorn er ekki síst þekkt fyrir að státa af hæsta hita sem mælst hefur á Íslandi, 30,5 stig þann 22. júní árið 1939. Upphaflega voru 30,3 gráður lesnar af mælinum en síðar kom í ljós að mælirinn var 0,2 gráðum of lágur og var því skráningin leiðrétt.
Kristín sagði einnig frá því að heildarfjöldi alhvítra daga á Teigarhorni er ekki nema 18 á ári hverju eða rétt rúmlega tvær vikur. Meðalfjöldi þokudaga á staðnum öllu meiri eða 29 talsins árlega.
Þá var afhjúpaður viðurkenningarskjöldur frá Alþjóðaveðurstofunni fyrir meira en 100 ára samfelldar mælingar. Er þetta önnur veðurstöðin hérlendis sem fær slíka viðurkenningu en hin er Stykkishólmur.
Frá fyrirlestrinum í síðustu viku. Mynd: Kristján Sveinn Ingimarsson
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.