Meðalaldur austfirskra sauðfjárbænda í hærra lagi

Meðalaldur austfirskra sauðfjárbænda er í hærra lagi á landsvísu og minna um stærri bú. Fljótsdalshérað er engu að síður eitt helsta sauðfjárræktarsvæði landsins.

Þetta má lesa út úr skýrslu Byggðastofnunar um stöðu sauðfjárræktar sem unnin var fyrir innviðaráðuneytið. Niðurstöður skýrslunnar eru að forsendur sauðfjárbúskapar séu við það að bresta vegna lágs afurðaverðs og hækkandi kostnaðar.

Samkvæmt samantektinni eru um 47 þúsund fjár á Austurlandi. Þótt féð sé frekar fátt samanborið við aðra landshluta er Fljótsdalshérað eitt helsa sauðfjárræktarsvæði landsins, ásamt Borgarfirði, Húnaþingi vestra og Austur-Húnavatnssýslu með um 35 þúsund fjár. Um 5000 fjár eru í Vopnafirði og um sjö þúsund í Fjarðabyggð.

Út úr skýrslunni má lesa að flest búanna á Héraði séu með 300-600 fjár, sem er heldur hærra hlutfall en annars staðar á landinu þar sem sauðfjárrækt er umfangsmikil. Að sama skapi eru heldur færri stórbú, með meira en 600 fjár, á svæðinu. Þrátt fyrir þetta telst Héraðið ekki meðal þeirra svæða þar sem sauðfjárrækt er mikilvægasta atvinnugreinin en þau svæði eru skilgreind eftir fjölda sauðfjárbúa á hverja 100.000 íbúa.

Á Héraði eru 56 bú með meira en 300 fjár, sjö í Vopnafirði og 18 í Fjarðabyggð. Hlutfall búa undir og yfir 600 fjár er nokkuð jafnt í Fjarðabyggð en ekkert bú fer yfir 600 kindur í Vopnafirði.

Á landsvísu er um þriðjungur sauðfjárbænda yfir sextugu. Á mið-Austurlandi er hlutfallið 52%. Til frekari samanburðar má nefna að í Húnavatnssýslunum er hlutfall sauðfjárbænda undir sextugu 64%. Í Fjarðabyggð er hlutfallið jafnt en í Vopnafirði er aðeins einn af sjö ábúendum kominn yfir þennan aldur.

Heldur líklegri en aðrir til að hætta

Í samantekt Byggðastofnunar eru greind svör út frá könnun sem gerð var vorið 2020 um byggðafestu í sveitum landsins. Almennt kemur fram að staða sauðfjár sé bæði verri en annarra bænda eða þeirra sem búa í sveit. Spurt var út í atriði eins og fjárhagsstöðu, ánægju með búsetu, þróun lífsskilyrða, horfur til frambúðar og líkurnar á að fólk flytji úr sveitinni.

Austfirðingar eru heilt yfir í meðaltali í svörum sauðfjárbænda við þessum skilyrðum nema að þeir voru í þeim hópi sem líklegastir voru til að hætta og flytja. Efnahagur spilar stóran þátt í slíkum hugleiðingum en einnig atriði eins og nálægð við afkomendur.

Þá eru í samantektinni dregnar fram tölur um lánveitingar Byggðastofnunar til sauðfjárræktar. Þau nema alls 1,8 milljarði króna. Mest er lánaði í Dalina, Húnavatnssýslur og Skagafjörð en einnig er töluvert af lánum í Norðurþingi og nágrenni Egilsstaða.

Skýrsluhöfundar benda á að engum sé greiði gerður með auknum lánveitingum meðan búskapurinn standi ekki undir sér. Samkvæmt samantektinni þarf afurðaverð að hækka um 40% í haust til að búin komi út á sléttu. Þess vegna sé viðbúið að einhverjir bændur bregði búi í haust.

Það hefur ýmis félagsleg áhrif í för með sér. Göngur eru gjarnan sameiginleg verkefni og geta orðið þeim sem eftir standa ofviða sem aftur gæti leitt til þess að þeir hætti. Fækkun bænda leiðir líka til fækkunar barna í skólum sem aftur einangrar þau sem eftir eru, félagslega. Búseta í sveitum er talin öryggismál fyrir vegfarendur, ekki sé gott til dæmis í ljósi uppgangs ferðaþjónustu, að of gisið verði milli bæja. Samdráttur í greininni kemur einnig niður á verslun og þjónustu í dreifbýli. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.