Mátti ekki hafa kannabisefni í fórum sínum þrátt fyrir að hafa verið ávísað því af lækni

Karlmaður á fimmtudagsaldri hefur verið dæmdur sekur í Héraðsdómi Austurlands fyrir að hafa haft í fórum sínum verkjalyf sem innihélt kannabis. Hann hafði þó aflað þess á lögmætan hátt í apóteki eftir ávísun læknis. Lögreglustjórinn felldi málið niður en var gert að taka það upp aftur eftir ákvörðun ríkissaksóknara.

Tollverðir stöðvuðu ferð mannsins úr Norrænu í apríl eftir að fíkniefnahundur hafði sýnt viðbrögð þegar maðurinn kom niður landganginn. Þegar hann var spurður um hvort hann hefði fíkniefni í fórum sínum framvísaði hann fjórum lyfjadósum af efni sem samanlagt innihélt 15,3 grömm af maríjúana.

Maðurinn framvísaði ávísun frá lækni í heimalandi sínu með leiðbeiningum um inntöku lyfsins sem og nánari upplýsingum um það, svo sem styrkleika upp á 22%. Fram kom að maðurinn hefði glímt við verki eftir slys fyrir um 40 áratugum og hefði fengið lyfinu ávísað þar sem vægari verkjalyf skiluðu ekki árangri.

Þá hafði maðurinn skírteini frá apóteki í heimalandinu til ferða með lyfið innan Schengen-svæðisins. Hann kvaðst einnig hafa rætt við starfsmenn apóteksins sem hefðu fullvissað hann um að hann mætti hafa lyfið meðferðis innan svæðisins. Við rannsókn málsins var einnig aflað gagna frá lögregluyfirvöldum í heimalandi mannsins sem staðfestu að hann mætti hafa efnið í fórum sínum.

Lögreglustjóri taldi rétt að fella málið niður


Svo fór að lögreglustjórinn á Austurlandi felldi málið niður í febrúar 2022. Embættið tjáði manninum að það teldi hann hafa framvísað gögnum sem það teldi fullgild og málið væri ekki líklegt til sakfellingar. Ríkislögreglustjóri felldi ákvörðunina úr gildi í byrjun apríl 2022, taldi hana andstæða og fjarstæða lögum. Lögreglustjóri tók málið aftur til meðferðar og gaf út ákæru um mánuði síðar.

Maðurinn játaði verknaðarlýsingu en neitaði annars sök í málinu og sagðist hafa verið með lyfið í góðri trú til einkanota. Hann kvaðst hafa kannað réttindi sín fyrir ferðalagið með leit á netinu og samtali við apótekið en ekki kannað íslenska löggjöf sérstaklega. Hann hefði strax framvísað lyfinu þegar tollverðir höfðu afskipti af honum. Misvísandi ákvarðanir íslenskra yfirvalda hefðu síðan valdið honum hugarangri. Ákæruvaldið hafnaði röksemdum mannsins og vísaði til fordæma úr íslenskum dómum um túlkun á lyfjalögum og löfum um ávana- og fíkniefni.

Ein undanþága fyrir kannabislyf á Íslandi


Sérfræðingur á eftirlitssviði Lyfjastofnunar var kallaður sem vitni fyrir dóminn. Hann sagði stofnunina almennt hafa svarað erindum á þá leið að heimilt væri að vera með lyf sem væru framleidd og aflað löglega. Viðkomandi lyf væri löglega framleitt í Danmörku og starfsmenn stofnunarinnar heimsótt verksmiðjurnar. Lyfið væri þó flokkað sem óhefðbundið og vandkvæði hefðu komið upp við framleiðsluna.

Sérfræðingurinn sagði stofnunina fylgja sömu reglu og hin Norðurlöndin um kannabis um að það væri ekki löglegt lyf. Ein slík undanþága hafi þó verið veitt hérlendis en fleiri ytra auk þess í Danmörku væri í gangi sérstakt tilraunaverkefni. Til væru lyf hérlendis sem flokkuðust sem ávana- og fíkniefni, svo sem amfetamíntöflur, sem merktar eru þannig og ávísað af læknum. Reglur þar um hefðu verið rýmkaðar undanfarin ár.

Skýrt bann í íslenskum lögum


Í niðurstöðu dómsins segir að í fylgigögnum með Schengen-lögunum sé ákvæði um að einstaklingar þurfi að vera tilbúnir að gera ráðstafanir ef strangara eftirlit er með lyfjum á ákveðnu yfirráðasvæði. Samkvæmt íslenskum lögum sé varla og meðferð maríjúana ólögleg. Í landinu sé skýr refsistefna sem ekki hafi verið breytt, þrátt fyrir umræður um annað. Dómurinn taldi kannabisefni ekki uppfylla skilyrði til að flokkast sem lyf og þar með ekki falla undir undantekningarákvæði um innflutning lyfja til eigin nota. Maðurinn hefði því brotið gegn íslenskum lögum.

Dómurinn taldi hins vegar rétt að fella refsingu niður vegna afsakanlegrar vanþekkingar, magn efnisins væri það lítið að það væri ekki nema til eigin nota og þeirrar réttaróvissu sem meðal annars hefði komið fram í meðferð handhafa ákæruvaldsins á fyrri stigum málsins. Þetta var niðurstaðan þótt maðurinn ætti að baki sakaferil innan dansks réttarkerfis, meðal annars fyrir fíkniefnabrot.

Efnið var þó gert upptækt og manninum gert að greiða helming sakarkostnaðar upp á 1,24 milljónir króna en hinn helmingurinn var felldur á ríkið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.