„Markmiðið er að lífga upp á skammdegið“

„Það verður eitthvað í gangi í flestum verslunum þar til tíu um kvöldið,“ segir Margrét Árnadóttir, starfsmaður Þjónustusamfélagsins á Héraði, um viðburðinn Haustkvöld á Egilsstöðum á fimmtudaginn.


Þetta er í þriðja skipti sem samskonar viðburður er haldinn á Egilsstöðum.

„Markmiðið er að lífga upp á skammdegið og skapa skemmtilega stemmningu í bænum. Mætingin hefur verið góð og viðtökurnar sömuleiðis, það er eitthvað við að taka bæjarrölt þegar farið er að dimma, verslanri eru með kertaljós og kósýheit. Það myndast líf í miðbænum og það er svo gaman að sjá hann iðandi svona af lífi,“ segir Margrét.

Margrét segir það misjafnt upp á hvað hver aðili bjóði. „Sumir verða með afslætti, aðrir kynningar og bara allt þar á milli. Alllir eru hinsvegar með léttar veitingar og kaffi eða eitthvað að drekka. Hús handanna verður til dæmis með „nammikvöld“ sem hljómar alveg voðalega skemmtilega og ég ætla allavega ekki að missa af því,“ segir Margrét sem hvetur Héraðsbúa og nærsveitunga að koma og gera sér glaðan dag á fimmtudaginn.

„Það er um að gera að mæta bara snemma, þá er hægt að fara út að borða áður en búðarröltið hefst, en það er til dæmis pizzahlaðborð á N1, Salt og Gistihúsið eru svo alltaf á sínum stað svo er „tveir fyrir einn á Ölstofunni í Hótel Valaskjálf fyrir þyrsta. Ég gæti haldið endalaust áfram. Bara um að gera að taka daginn frá og gera hann skemmtilegan.“

Margrét segir að best sé að kynna sér málið á síðunni Visit Egilsstaðir, eða á Facebook-síðunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.