Markaðsstofan vinnur eftir sama verkefnalista og fyrri ár

skuli_bjorn_gunnarsson.jpg
Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af því markaðssetning Austurlands bíði skaða af því þótt hægar gangi að sameina austfirskar stoðstofnanir heldur en vonir stóðu til. Verkefnið á að endanum að skila sterkari, faglegri stofnunum heldur en fyrir voru. Ekki er verið að sameina eingöngu hagræðingarinnar vegna.

„Markaðsstofan starfar að sínum föstu verkefnum af krafti eins og aðrar stofnanir, þar til ný stofnun tekur yfir. Stofnanirnar eru allar til fram að þeim tímamótum með tilheyrandi stjórnum. Þannig er verkefnalisti Markaðsstofu Austurlands ekkert öðruvísi næstu mánuði en hann var fyrir ári.“

Þetta segir Skúli Björn Gunnarsson, formaður Markaðsstofu Austurlands. Hann er einnig formaður Ferðamálasamtaka Austurlands, sem verða meðal stofnaðila að nýrri stoðstofnun og á sæti í verkefnastjórn hinnar nýju stofnunar.

Eins og Agl.is greindi frá í gær óttast ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi að dráttur á að ný stoðstofnun á Austurlandi taki til starfa komi illa niður á tímabili þar sem mikið er um bókanir fyrir sumarið.

„Ferðaþjónustuaðilar geta alveg leyft sér að gagnrýna þann tíma sem það tekur að sameina þessar stoðstofnanir þar sem við kláruðum það sem að okkur sneri, bæði Ferðamálasamtökum og Markaðsstofu, í október. Hér er hins vegar um flókna sameiningu að ræða og stærri en nokkur landshluti hefur vogað sér að fara í. Við erum því að vinna brautryðjendastarf eins og stundum áður í samstarfi á fjórðungsvísu.

Það er góður skriður á málum núna og ríkur vilji til að koma þessu saman hjá öllum aðilum. Markmiðin eru allir sammála um, þ.e. að bæta aðgengi að þjónustunni, einfalda stjórnsýslu og nýta mannauð og aðstöðu betur. Hér er ekki verið að sameina til að ná einhverjum fjárhagslegum sparnaði heldur eru faglegu sjónarmiðin höfð að leiðarljósi.“

Skúli tekur þó undir að það sé „áhyggjuefni“ ef stöðugildi ferðamálafulltrúa hjá sveitarfélögum séu að dragast saman eða jafnvel hverfa. Þannig er enginn ferðamálafulltrúi starfandi í Fjarðabyggð í dag.

„Þeir hafa verið mikilvægir bæði fyrir sitt  nærsvæði og fjórðunginn í heild. En þetta er eitt af þeim málum sem tekin verða fyrir í samningum við sveitarfélög um nýja stoðstofnun sem og samningum við ríkið. Verkefnin sem þessir einstaklingar hafa unnið þarf að vinna áfram og sérstaklega mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar eigi sína tengiliði í hverju sveitarfélagi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.