Marka þarf skýrari umgjörð um orkuvinnslu

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að Alþingi þurfi að taka upp rammaáætlun og móta skýrari stefnu um orkuvinnslu en nú er fyrir hendi, eigi áform um orkuskipti hérlendis að ganga eftir.

Þetta kemur fram í viðtali við bæjarstjórann Jón Björn Hákonarson í nýjasta tölublaði Austurgluggans um fyrirhugaða uppbyggingu græns orkugarðs á Reyðarfirði. Fjarðabyggð og Landsvirkjun fara fyrir hópi fyrirtækja sem skoða uppbygginguna.

Orkugarðinum er ætlað að framleiða vetni úr vatni með rafmagni. Vonir standa til að vetni verði meðal þeirra orkugjafa sem leysi jarðefnaeldsneyti af hólmi.

Þar sem ekki er vitað hve umfangsmikill orkugarðurinn verður er ekki enn ljóst hvaðan orka í vetnisvinnsluna verður fengin. Möguleiki er að hann geti notað breytilega orku og minnkað framleiðslu sína þegar umframorka er ekki til í kerfinu.

En ekki er heldur útilokað að virkja þurfi sérstaklega til að knýja garðinn. Ekki liggur fyrir hvernig það yrði gert en áætlað hefur verið að 300 MW vanti inn í íslenska orkukerfið til að skipta út jarðefnaeldsneyti hérlendis í samgöngum á vegum og sjó. Það jafngildir Búrfellsstöð eða hálfri Kárahnjúkavirkjun.

Jón Björn, sem jafnframt er stjórnarmaður í Landsvirkjun, segir að þingmenn verði nú að setjast niður og taka ákvörðun um orkuöflun sé þeim alvara um orkuskiptin.

„Fyrir nýafstaðnar þingkosningar töluðu allir flokkar um græna fjárfestingu og þau ótrúlegu tækifæri sem fylgja því að við höfum hreina okkur þannig að allt sem við framleiðum telst grænt. Þeim ber nú skylda til að marka skýra stefnu um hvernig eigi að bregðast við.

Burtséð frá þessu verkefni eða öðrum þarf umgjörð um orkuvinnslu sem heldur. Rammaáætlun skilar ekki þeim árangri sem við ætluðum. Ef menn hafa sagt A þá verða þeir líka að geta sagt B.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.