Margrét Kolka hlaut styrk úr sjóði Ágústar Ármanns

Margrét Kolka Hlöðversdóttir, framhaldsnemi í rythmískri tónlist við MÍT, hlaut styrk úr minningarsjóði Ágústar Ármanns í ár.

Í tilkynningu frá stjórn sjóðsins segir að Margrét sé í söngnámi sem aðalfag og píanóleik sem aukagrein ásamt undirgreinum. Auk þess að hafa stundað nám í söng og píanóleik, lærði hún á þverflautu bæði við Tónlistarskólann í Garðabæ og síðar við Tónskólann í Neskaupstað.

Margrét stundaði nám við Tónskólann í Neskaupstað 2008 til 2016 og byrjaði á að læra á píanó þar og var Ágúst Ármann hennar fyrsti kennari við skólann.

Margrét lauk grunnprófi í klassískum söng í Söngskólanum í Reykjavík 2017 áður en hún færði sig yfir í FÍH til að læra jazzsöng.

„Við óskum Margréti Kolku til hamingju með styrkinn og óskum henni góðs gengis í sínu námi,“ segir í tilkynningunni.

Þetta er í fimmta sinn sem úthlutað er úr minningarsjóðnum. Sjóðurinn var stofnaður árið 2015 og fer úthlutun fram á fæðingardegi Ágústar Ármanns 23.febrúar ár hvert.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.