Margir líta á þættina sem lið í áfallahjálp

Aðstandendur sjónvarpsþáttanna Háski: Fjöllin rumska, sem fjalla um snjóflóðin í Neskaupstað 1974, hafa fengið mikil viðbrögð eftir að þættirnir voru sýndir í sjónvarpi. Öll viðtöl sem tekin voru fyrir þættina hafa verið send til varðveislu austur í Neskaupstað.

„Við höfum fengið gríðarleg viðbrögð, það er vart hægt að lýsa þeim. Mestu viðbrögðin voru við þriðja þætti, hann var tilfinningaþrungnastur.

Fólk hefur skrifað okkur gríðarlega mikið, bæði á síðurnar okkar á Facebook og sent okkur einkaskilaboð til að þakka fyrir. Margir líta á þættina sem lið í áfallahjálp.“

Þetta segir Þórarinn Hávarðsson sem stóð að baki gerð þáttanna ásamt syni sínum, Eiríki Hafdal. Þættirnir voru fjórir og var sá síðasti sýndur á RÚV að kvöldi páskadags.

Blóðugur niðurskurður fyrir myndina

Vinna feðgana hófst í byrjun árs 2016 en heimildamynd, með sama nafni og þættirnir, var frumsýnd haustið 2017. Hún var 128 mínútur að lengd. „Við vildum koma henni niður í tvo tíma en okkur fannst blóðugt hvað við þurftum að skera mikið efni út, sumum viðmælendum alveg,“ segir Þórarinn.

Úr varð að gera þætti fyrir sjónvarp og varð hver þeirra rúmar 40 mínútur sem þýðir að þáttaröðin er um helmingi lengri en myndin. Ekki þurfti að ráðast í neinar nýjar upptökur fyrir þá, en klippa til og endurraða fyrir frásögnina í nýju formi.

Meðal þess sem bætt var við voru frásagnir snjóflóðasérfræðinga um hvað hefði verið að gerast í fjallinu dagana fyrir flóðin og viðtal við snjóbílstjórann Svein Sigurbjarnarson sem varð frá að hverfa er hann reyndi að koma fólki til Norðfjarðar sem var á leið í jólafrí. „Það segir sitt að hann hafi gefist upp og snúið við.“

Mesta áskorun að fela gráturinn

Því fer þó fjarri að allt efni feðganna hafi verið sent út. Alls voru tekin 42 viðtöl þar sem hver viðmælandi lýsir frá upphafi til enda aðkomu sinni að snjóflóðunum. Viðtölin, sem samanlagt spanna um 20 klukkustundir, hafa verið gefin austur í Neskaupstað til varðveislu fyrir komandi kynslóðir.

Viðtölin eru afar merkileg heimild um snjóflóðin því nokkrir viðmælenda höfðu aldrei rætt um þau áður. Það tók stundum á. „Við fengum að minnsta kosti einn eða tvo viðmælendur sem aldrei hafa viljað tjá sig um flóðin áður. Ég veit að annar þeirra hefur hvorki horft á myndina né þættina enn.

Að fara í svona viðtal er meira en að segja það, einkum fyrir þá sem aldrei hafa unnið úr málunum. Það varð ein stærsta áskorun okkar að fela hve mikið fólkið grét.“

Feðgarnir höfðu áður gert heimildamynd um björgunarafrek í Vöðlavík í ársbyrjun 1994 þegar báturinn Bergvík VE strandaði. Þórarinn segir þá vera með fleiri verkefni af svipuðum toga á teikniborðinu. „Við fáum alltaf ábendingar um efni um ýmis slys sem fólk vill sjá okkur taka fyrir næst. Við höfum meðal annars nýtt tækifærið samhliða upptökum á þessum tveimur myndum til að fá viðmælendur til að segja okkur frá öðrum atvikum sem þeir hafa lent í.“

Þótt sýningu þáttanna sé lokið eru þeir enn aðgengilegir í gegnum streymisveitur fram í miðjan maí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.