Orkumálinn 2024

Mannabyggð frá elleftu öld kemur undan jörðinni

Fornleifafræðingar sem vinna að uppgreftri á Seyðisfirði eru farnir að finna heilleg hús á svæðinu frá því á elleftu öld. Samhliða er áfram unnið úr upplýsingum og efni sem fékkst við uppgröft á kumlateig þar síðasta haust.

Grafið er í kringum bæinn Fjörð, sem samkvæmt Landnámu var fyrsti bærinn í Seyðisfirði, vegna væntanlegra snjóflóðavarnamannvirkja á svæðinu. Uppgröfturinn í fyrra teygðist á langinn þar sem undir áætluð lok hans komu í ljós nokkur kuml eða grafir frá heiðnum tíma.

Svæðið var grafið upp í skyndi og jarðvegur úr því geymdur til frekari rannsókna. Undanfarnar vikur hefur efnið verið sigtað og við það fundist þrjár litlar perlur, klébergsbrot og leikmaður úr hnefatafli, svokallaður hnefi. Þetta eru 300 lítrar af jarðvegi og er athugun á þeim um það bil hálfnuð.

Alls staðar mannvirki

Í byrjun júní var opnað nýtt uppgraftarsvæði, heldur innar en þar sem grafið var í fyrra og þar eru að koma í ljós byggingar frá því á 11. öld. „Það eru alls staðar að koma upp mannvirki,“ segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum.

Við fyrstu sýn virðast þetta vera 3-4 hús en það skýrist nánar á næstu dögum. Uppgröftur á þeim er stutt kominn en svo virðist að eitt húsanna sé útihús en síðan eru þarna einhverjir mannabústaðir, að minnsta kosti er eldstæði komið í ljós.

Skriðan lagst upp að húsunum

Skriðulög á svæðinu hafa vakið mikla athygli. Við forkönnun sumarið 2020 kom í ljós skriða frá því um 1400 og minjar undir henni. Í fyrra grófu fornleifafræðingarnir sig að auki niður á skriðu frá því um 1150, sem engar heimildir voru um. Undir henni voru kumlin.

Á því svæði var eldri skriðan mjög þykk. Þar sem nú er unnið snýst þykkt þeirra við og tólftu aldar skriðan virðist lítið hafa raskað byggingunum. „Það er merkilegt að hún virðist hafa lagst upp að húsunum en ekki skemmt þau að ráði. Hún virðist hafa verið orðin seig og hæg. Við sjáum til dæmis hvernig hún fer framhjá einum veggnum. Byggingarnar eru ótrúlega vel varðveittar,“ segir Ragnheiður sem þrátt fyrir áratuga reynslu hafði ekki áður grafið minjar undan skriðu.

Ekki virðast þó öll hús á svæðinu hafa sloppið undan skriðunni. Efst á svæðinu er húsveggur inni í skriðunni. „Það kann að hafa verið bygging sem stóð nokkrum metrum ofar og skriðan hreif með sér,“ útskýrir Ragnheiður.

Undir tímapressu

Enn er erfitt að slá nokkru föstu um aldur húsanna, að öðru leyti en þau séu eldri en frá 1150. Aðspurð um mögulegar landnámsminjar segir Ragnheiður of snemmt að tengja húsin svo langt aftur heldur sé líklegra að eldri minjar séu undir þeim. Ekkert sé öruggt í því, þegar nýir bæir hafi verið byggðir hafi bæjarstæðin gjarnan verið færð til. Við könnunarskurð í bæjarhóli Fjarðar hafi sést mjög gamlar minjar. Ekki stendur til að grafa í sjálfum hólnum að þessu sinni.

Til stendur að ljúka uppgreftrinum um miðjan ágúst. Til þess þarf að hafa hraðar hendur, búið er að opna 77 metra og 15 metra langt svæði og til stendur að lengja það um þrettán metra. Ragnheiður kveðst þó bjartsýn á að það markmið náist. „Við erum með 19 starfsmenn, ótrúlega duglegt fólk og marga vana, til að mynda alla sem unnu hér í fyrra. En þetta er vissulega pressa.“

Fyrir forvitna má benda á að leiðsögn er í boði um uppgraftrarsvæðið alla föstudaga í sumar klukkan 14:00. Þá verður Ragnheiður með fyrirlestur um rannsóknina í Herðubreið á þriðjudag klukkan 17:30. 

Séð yfir uppgraftarsvæðið. 

Hnefinn úr hnefataflinu. Mynd: Antikva 

sfk fornleifar juni22 0020 web


fornleifar sfk juni22 hnefatafl antikva





Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.