Orkumálinn 2024

Málþing á Skriðuklaustri og í Norræna húsinu: Skandinavismi og fullveldi

Í tilefni 100 ára fullveldisafmælis stendur Gunnarsstofnun fyrir málþingi um sameiningu Norðurlandanna í fortíð og framtíð. Málþingið verður haldið bæði á Skriðuklaustri og í Norræna húsinu.


Málþingið verður haldið á Skriðuklaustri næstkomandi sunnudag klukkan 14:00 en í Norræna húsinu fimmtudaginn 1. nóvember klukkan 16:00. Viðburðurinn nýtur styrks úr Uppbyggingarsjóði Austurlands.

Helsta viðfangsefni málþingsins er að draga fram hvernig þessar tvær hreyfingar mættust, þ.e. baráttan fyrir fullveldi Íslands og hugmyndir skandinavista um að sameina Norðurlöndin.

Frummælendur á málþinginu eru: Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur og höfundur ævisögu Gunnars Gunnarssonar en Gunnar skáld var ötull talsmaður sameiningar Norðurlanda á sama tíma og Íslendingar voru að berjast fyrir fullveldi landsins; Helgi Hjörvar fyrrum forseti Norðurlandaráðs mun velta fyrir sér þeim hugmyndum sem komið hafa fram á síðustu árum um að sameina Norðurlöndin og hvað framtíðin geti hugsanlega borið í skauti sínu í þeim efnum.

Á málþinginu í Norræna húsinu verður jafnframt sérstakur gestur, Ruth Solveig Hemstad, norsk fræðikona sem er einn helsti sérfræðingur á Norðurlöndunum um þessar mundir í skandinavisma stefnunni sem átti sér marga fylgismenn á síðari hluta 19. aldar og langt fram eftir þeirri tuttugustu. Þar mun einnig tala Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur sem hefur rannsakað fullveldisbaráttuna og er um þessar mundir er að senda frá sér bók byggða á þeim rannsóknum.

Gunnar var mikill skandinavismi
„Gunnar skáld var mikill skandinavismi og flutti víða erindi um mikilvægi þess að sameina Norðurlöndin. Á sama tíma voru forvígismenn sjálfstæðis á Íslandi að berjast fyrir fullveldi. Það er áhugavert að heyra hvernig þessar skoðanir gátu átt samleið eða hvort þær voru andstæðar. Enn í dag skjóta reglulega upp kollinum hugmyndir um að sameina Norðurlöndin og gaman að velta fyrir sér þeim möguleika og hvað það hefði í för með sér. Hvort bandaríki Norðurlanda séu raunhæfur möguleiki,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri.

Aðgangur er ókeypis og allir áhugasamir hvattir til að mæta, hlusta og taka þátt í umræðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.