Málstofur og hraðstefnumót í Menntabúðum

„Tilgangurinn er að við lærum af hvort öðru sem jafningjar, verðum öruggari hvað varðar tæknina og eflum þannig tæknikennslu á Austurlandi,“ segir Helga Ósk Snædal Þórormsdóttir, verkefnastjóri yfir Austmennt, menntabúðum fyrir kennara og stjórnendur á Austurlandi.


Austmennt eru menntabúðir sem settar voru á fót í kjölfar Kennaraþings Austurlands sem haldið var í Neskaupstað síðastliðið haust. Markmið þeirra er að efla tækniþekkingu kennara á Austurlandi.

„Margrét Þóra Einarsdóttir, grunnskólakennari við Brekkuskóla á Akureyri, kynnti fyrir okkur menntabúðirnar Eymennt í Eyjafirði. Okkur langaði öllum að prufa þetta og ákváðum að slá til, en um er að ræða samráðsvettvang sem er ætlað að byggja brýr milli aðila innan skólasamfélags með því að skapa vettvang til samstarfs um þróun starfisins. Ég var beðin um að vera verkefnastjóri yfir þessu og ákveðið var að hafa fyrstu menntabúðirnar í Neskaupstað eftir að göngin hefðu opnað,“ segir Helga Ósk, en síðan þá hafa einnig verið haldnar menntabúðir á Egilsstöðum.

Mikil ánægja innan skólasamfélagsins
Helga Ósk segir að miðað verði við að halda menntabúðir á tveggja mánaða fresti, í tvær klukkustundir í senn.

„Fyrirkomulagið er á þann veg að þátttakendur hittist á sal, þaðan er farið í málstofur þar sem þeir geta prufað það sem verið er að fjalla um, auk þess sem boðið er upp hraðstefnumót þar sem kennarar fræða aðra um sín eftirlætis forrit á þremur mínútum.“

Helga Ósk segir að menntabúðirnar þurfi ekki að vera eins í hvert skipti, heldur getur hver og einn skóli ákveðið sitt form. „Mitt verkefni núna er að hafa samband við skóla og athuga hvort að áhugir er fyrir að halda menntabúðir og bjóða mína aðstoð sé þess óskað, en svo eru það kennarar hvers skóla sem skipuleggja þær.“

Helga Ósk segist bjartsýn á framhaldið. „Mætingin hefur verið mjög góð, eða um fimmtíu manns í hvort skiptið. Ég held að kennarar og skólastjórnendur séu almennt mjög jákvæðir og ánægðir með menntabúðirnar. Fræðslustjórar og kennsluráðgjafar hafa einnig verið að mæta til okkar, sem er alveg frábært.“

Mikilvægt að kennarar kynni sér tæknina
Helga Ósk er upplýsingatæknikennari í Nesskóla, en hún er jafnframt í meistaranámi í Upplýsingatækni í námi og kennslu þar sem hún er að gera starfendarannsókn um menntabúðirnar á Austurlandi, þar sem hún kannar viðhorf og upplifun kennara á menntabúðunum Austmennt.

„Ég hef mikinn áhuga á því að efla tæknikennslu í skólum og tel það lykilatriði næstu ára að undribúa nemendur fyrir ókomna tíð þar sem tæknin verður ráðandi. Ég tel samt mikilvægt að við kennarar fáum tækifæri til þess að læra á tækinina og efla okkur í henni og þess vegna eru menntabúðir frábær grundvöllur til þess,“ segir Helga Ósk.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar