Mæðgin gripin með 2 kg af fíkniefnum

Liðlega tvö kílógrömm af amfetamíni og kókaíni fundust falin í ferðatöskum mæðgina sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar að morgni þriðjudags í síðustu viku.

Þetta kemur fram í svari lögreglunnar á Austurlandi við fyrirspurn Austurfréttar.

Móðirin er á fertugsaldri en sonurinn á sextánda aldursári. Þau voru bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald til föstudagsins 23. september. Vegna ungs aldurs er pilturinn ekki í fangelsi í gæsluvarðhaldinu heldur vistaður á stofnun fyrir ungmenni.

Rannsókn málsins, sem unnið var í samstarfi lögreglu og tollgæslu, miðar vel. Vegna rannsóknarhagsmuna getur lögregla ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu.

Í lok júní fannst talsvert magn fíkniefna falið í bifreið sem kom með ferjunni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi stendur rannsókn þess máls enn yfir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.