Lýst yfir óvissustigi vegna skriðuhættu

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslandi, lýsti á sjötta tímanum í dag yfir óvissustigi almannavarna í fjórðungnum vegna skriðuhættu.

Það er gert í kjölfar mikilla rigninga í mánuðinum sem orðið hefur til þess að grunnvatnsstaða er há þar sem hún er mæld, í borholum á Seyðisfirði og Eskifirði. Af því er dregin sú ályktun að grunnvatnsstaða sé almennt há í landshlutanum.

Heldur dró úr rigningu í byrjun vikunnar en um leið kólnaði og til fjalla féll úrkoma sem snjór. Næstu tvo daga er spáð töluvert mikilli úrkomu. Að auki hlýnar í nótt og er hætta á að snjórinn leysist upp. Allt þetta skapar aukna skriðuhættu.

Sérstaklega er fylgst með hættunni á Seyðisfirði með vöktunarbúnaði. Þar hafa sést hreyfingar á hrygg utan við Búðará, sem færðist mikið síðasta haust. Utan hans er hreyfingin mun munni en einnig hafa mælst hreyfingar í Neðri-Botnum og Þófa að undanförnu.

Veðurstofan fylgist með aðstæðum allan sólarhringinn og hefur samráð við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögregluna á Austurlandi. Uppfærslur um mælingar á mat á aðstæðum eru reglulega settar inn á vefsíðu Veðurstofunnar og endurbirtar hér á Austurfrétt eins fljótt og auðið er.

Í samantekt fyrir Seyðisfjörð sem birt var fyrr í dag segir að þar sé búist við allt að 130 mm. úrkomu fram til föstudags. Mest er fylgst með hryggnum við Búðará og þótt ekki sé talin ástæða til rýminga enn hefur verið girt fyrir umferð um göngustíg upp með ánni. Hreyfing á honum hefur verið 2-4 mm. á dag síðustu tvo daga. Lítil eða engin hrefing virðist í Þófa.

Á Eskifirði er gert ráð fyrri allt að 100 mm. úrkomu. Þar hefur ekki orðið vart hreyfinga á aflögunarmælum síðan á mánudag. Heildarhreyfingar þeirra í nóvember eru 6 mm., sem telst lítið. Þá voru fastpunktar ofan við byggðina mældir í byrjun vikunnar. Engar vísbendingar eru um teljandi hreyfingar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.