Orkumálinn 2024

Lýsa yfir vonbrigðum með samgönguáætlun

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps lýsir yfir vonbrigðum með samgönguáætlun sem nýverið var lögð fram á Alþingi. Ekki er gert ráð fyrir að Axarvegur komist til framkvæmda á næsta áratug samkvæmt henni.

Sveitarstjórnin gerir bæði athugasemdir við áætlunina til næstu fimmtána ára en sérstaklega aðgerða áætlun til næstu fimm ára. Á henni er aðeins ætlaður einn milljarður í framkvæmdir á svæðinu frá Djúpavogi til Vopnafjarðar sem að mestu fer í Borgarfjarðarveg.

Sveitarstjórnin minnir á að undanfarin ár hafi verið einhugur á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi um að heilsársvegur um Öxi sé í forgangi nýframkvæmda í vegagerð á Austurlandi.

Hönnun vegarins sé lokið og beðið hafi verið í tíu ár eftir að framkvæmdir hæfust. Vegkaflinn sé 18 km langur og stytti leiðina milli Reykjavíkur og Egilsstaða um 71 km miðað við Hringveg með fjörðum.

Vakin er sérstök athygli á að Axarvegur sé eina verkefnið af þeim ellefu sem ákveðið var að ráðast í árið 2007 sem hluta af mótvægisaðgerðum vegna niðurskurðar aflaheimila. Óásættanlegt sé að þurfa að bíða í allt að aldarfjórðung til viðbótar en vegurinn er ekki á samgönguáætlun fyrr en á tímabilinu 2029-2033.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps skorar á þingmenn að breyta samgönguáætlun á þann veg að hún endurspegli vilja íbúa á Austurlandi og að tryggt verði fjármagn til að hefja framkvæmdir við Axarveg á næstu fjórum árum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.