Lýsa yfir stuðningi við VG þrátt fyrir vonbrigði í forvali

Ingibjörg Þórðardóttir, ritari Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og varaþingmaður flokksins kveðst hafa upplifað algjöra höfnun í forvali flokksins í Norðausturkjördæmi. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður flokksins, hefur ákveðið að taka annað sætið. Aðrir senda þakkir fyrir stuðninginn.

Fimm efstu sætin í forvalinu voru kunngjörð í gær. Efstur varð Óli Halldórsson, starfsmaður Þekkingarnets Þingeyinga og sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi.

Hann segist í færslu á Facebook „einlæglega þakklátur“ fyrir stuðninginn. Hann segir forvaldið hafa einkennst af málefnalegri umræðu og gagnkvæmri virðingu þrátt fyrir heilbrigða samkeppni sem fylgi stjórnmálunum.

Hann hafði betur í baráttu um oddvitasætið við Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformann. Hún tilkynnti eftir hádegi í dag að hún myndi taka sætið þótt niðurstaðan væru henni vonbrigði. Í yfirlýsingu sinni óskar hún bæði Óla og öðrum til hamingju auk þess sem hún heitir því að leggja allan sinn kraft í að tryggja flokknum góða kosningu.

Jódís Skúladóttir, lögfræðingur og sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi, hafnaði í þriðja sætinu. Hún kveðst á Facebook vera „orðlaus, auðmjúk og dálítið undrandi“ yfir gífurlegum stuðningi. Í framboði hafi verið framúrskarandi einstaklingar og baráttan skemmtileg.

Hún telur flokkinn í sókn í kjördæminu, bendir á innkomu hans í sveitarstjórn Múlaþings og ákalli kjósenda um fjölbreytni, jafnrétti og umhverfisvitund.

Kári Gautason frá Vopnafirði varð fjórði í forvalinu. Hann stefndi á annað sætið og þótt hann segist hafa slíkt keppnisskap að hann sé ekki sáttur við að ná ekki settu marki uni hann sáttur við útkomuna. Hann hafi fundið fyrir miklum meðbyr með málflutningi sínum um atvinnumál. Hann telur að svo VG nái árangri í kosningunum í haust þurfi flokkurinn að sýna að rætur hans nái enn til verkafólks, atvinnulífs og samfélagsins í dreifbýli sem hann muni áfram beita sér fyrir.

Norðfirðingurinn Ingibjörg Þórðardóttir, ritari VG og varaþingmaður í kjördæminu, varð ekki meðal fimm efstu í forvalinu. Hún segir í færslu á Facebook að augljóst sé að meira framboð sé af henni en eftirspurn og flokksfélagar hennar í kjördæminu hafi hafnað henni fullkomlega. Það breyti því ekki að hún munu standi við bakið á bæði flokknum og listanum sem samanstandi af frábæru fólki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.