Lýsa áhyggjum af laxadauða í Reyðarfirði

Verndarsjóður villtra laxastofna, North Atlantic Salmon Fund (NASF) lýsir áhyggjum af dauða lax í sjókvíum í Reyðarfirði.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjóðnum en með henni fylgir myndefni sem tekið var í Reyðarfirði dagana 10. – 15. september. Á þeim má sjá dauðan lax fljóta á yfirborðinu innan um fiska sem enn er verið að ala.

„Ég fylgdist með úr fjarska á föstudeginum og sá starfsmenn eldisfyrirtækisins dæla dauðum laxi úr kvínni í einn og hálfan tíma og eins og sést á þessum myndum þá er þetta hinn nöturlegi raunveruleiki. Eftir helgina hafði þetta hinsvegar versnað enn meira.

Ég skil ekki að nokkur maður hafi lyst á að leggja sér eldisfisk úr þessum kvíum til munns eða styðja svona framleiðslu. Þegar fiskurinn drepst þarna er búið að reyna ýmislegt en þarna er samt mikið magn af haus- og roðlausum úldnandi fiski og allan tíman safnast upp mengun í firðinum af þessu,“ er haft eftir Veigu Grétarsdóttur, kajakræðara sem tók myndirnar.

Hún tók í ágúst myndir af illa förnum eldisfiskum á Vestfjörðum. Í tilkynningunni segir að myndirnar frá Reyðarfirði sýni enn verri og óverjandi stöðu.

Kalla eftir afstöðu þingframbjóðenda

Í tilkynningu NASF er gefið í skyn að þörungablómi í firðinum eigi sök í dauða fiskanna. Framkvæmdastjóri Laxa hafnaði því að fiskar hefðu drepist í firðinum vegna þörunganna í síðustu viku. Hann sagði hins vegar í fréttum RÚV að marglyttur hefðu valdið skaða á eldinu. Í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar vegna þörungablómans sagði að þörungarnir væru ekki eitraðir en gætu í mjög miklu magni kæft fiska með að fylla upp í tálkn þeirra.

„Við getum ekki látið þetta viðgangast lengur. Þetta er bara viðbjóður og frambjóðendur til Alþingis skulda okkur skýringar á því hvort þeir ætli að taka ábyrga afstöðu og færa laxeldi upp á land, eða láta dýraníð og umhverfisspjöll verða normið eins og við sjáum þarna.

Ég trúi ekki öðru en að neytendur segi stopp núna og krefjist þess að eldisfiskur til neyslu verði merktur svo hægt sé að sniðganga lax úr eldi í opnum sjókvíum. Það drepast um átta þúsund fiskar á dag í sjókvíaeldi við þessar aðstæður,“ er haft eftir Elvari Erni Friðrikssyni, framkvæmdastjóra Verndarsjóðsins.

Skoski umhverfisverndarsinnin Don Staniford hjá Scottish Salmon Watch segir myndefnið sýna sömu slæmu stöðuna og í Skotlandi. „Þetta er hrikalegt að sjá. Sú ímynd að Ísland sé fyrirmyndarland hreinnar náttúru og upprunaland hreinna afurða er mjög sterk í Bretlandi. En þetta er alveg jafn slæmt og það versta sem við sjáum í skosku laxeldi og þetta verður að stoppa með öllum ráðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.