Orkumálinn 2024

„Lykilatriði að sveitarstjórnarfólk setjist saman yfir málin“

Páll Björgvin Guðmundsson, sem í lok júní lét af störfum sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar eftir átta ára starf, segir það lykilatriði að sveitarstjórnarfólk á Austurlandi setjist niður og komi sér saman um hvaða baráttumál eigi að vera í forgangi. Núverandi fyrirkomulag á ályktunum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) virðist ekki nógu skilvirkt.

„Aðalfundur SSA er skemmtilegur og nauðsynlegur vettvangur þar sem ályktað er um mörg mikilvæg mál en við förum ekki af fundi með sameiginlega framtíðarsýn á Austurland eða markvissa aðgerðaáætlun í málefnum fjórðungsins.

Ég lagði til, og það var samþykkt, árið 2016 að búinn yrði til listi tíu áhersluatriða til að vinna eftir fyrir komandi ár. Sú aðferðafræði hefur lítið þróast að ég held. Við verðum að setjast niður, merkja áhersluatriðin, standa algjörlega saman um þau og vinna síðan sameiginlega eftir þeim,“ segir Páll Björgvin í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Nokkrir tímar í nefndastarfi duga ekki

„Mér finnst t.d. gangnaumræðan ekki nógu vel ígrunduð en ég bind þó vonir við þá vinnu sem nú stendur yfir. Við höfum aldrei setið róleg saman við borð og rætt þessu mál svo ég best viti.

Aðalfundurinn er flókin samkoma og tímaramminn er lítill. Nokkrir tímar í nefndastarfi duga ekki. Hví hittumst við ekki á þingi og ræðum ekkert nema samgöngumál í tvo daga og einsetjum okkur að koma frá þeim fundi með sameiginleg sýn á samgöngumál fjórðungsins? Ef við finnum ekki lausnina sameiginlega tapa öll sveitarfélög á Austurlandi með einhverjum hætti.

Ég er ekki að gera lítið úr þeim ályktunum sem samdar eru og mikilvægi þeirra en það verður að vera til staðar forgangslisti sem sveitarfélögin tala öll um þegar þau hópast í ráðuneytin og berjast fyrir málunum.“

Óumflýjanlegt að Austurland verði eitt sveitarfélag

Nánara samstarf sveitarfélaga leiðir líka að umræðunni um Austurland sem eitt sveitarfélag. „Ég held að það sé óumflýjanlegt að reka Austurland sem eitt sveitarfélag ef við horfum til framtíðar. Við erum rétt rúmlega tíu þúsund manns. Það mun hins vegar taka tíma að ná því saman.

Mér finnst mörg rök fyrir því að firðirnir kláruðu sínar sameiningar fyrst og finnst liggja beinast við að Fjarðabyggð og Djúpivogur taki næsta skref ásamt Seyðisfirði. Ég sé líka fyrir mér aukið samstarf á ýmsum sviðum milli stóru sveitarfélaganna.“

Hefði verið hægt að vinna Háskólasetrið öðruvísi

Í viðtalinu nefnir Páll Björgvin uppbyggingu Háskólaseturs Austfjarða sem lykilatriði í áframhaldandi þróun búsetuskilyrða í Fjarðabyggð og Austurlandi. Skrifað var undir samninga um háskólasetrið í júní milli stærstu fyrirtækja og stofnana í Fjarðabyggð, sveitarfélagins og Háskólans á Akureyri í júní á síðasta ári. Það var gert að undangenginni umræðu þeirra á milli um hvernig búseta í sveitarfélaginu yrði best efld til frambúðar.

Gagnrýnt var að Fjarðabyggð hefði farið fram úr öðrum sveitarfélögum á svæðinu og samstarfi um uppbyggingu háskólanáms á vettvangi SSA. Fleiri sveitarfélög hafa síðan komið að verkefninu.

„Ég skal viðurkenna að það hefði mátt vinna þetta að einhverju leyti öðruvísi. Það er alveg rétt að búið var að ræða háskólamál á vettvangi SSA en þessi vinna fer síðan af stað í Fjarðabyggð. Það var búið að ræða þessi mál á ótal fundum á vettvangi SSA í mörg ár, að fá atvinnulífið að málum og allt í einu tókst þetta þarna á þessum tilbúna vettvangi í Fjarðabyggð. Ég er ekki viss um að það hefði tekist í hinu flókna umhverfi SSA.

Ég held að staða háskólasetursins sé góð. Það náðu allir saman að lokum og Fljótsdalshérað kemur nú inn í verkefnið af krafti. Þegar rykið sest sjá allir hvað stendur eftir. Það er m.a. fjármagn til að ráða verkefnastjóra sem kemur brátt til starfa til að vinna að stofnun háskólaseturs í samvinnu við HA. Þótt það hafi tekið alltof langan tíma, þá erum við komin af stað.“

Gott samstarf um olíuleit

Páll telur víða tækifæri í samstarfi sveitarfélaga á Austurlandi og það hafi oft gefist vel. Sem dæmi nefndir hann sameiginlega markaðssetningu á Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði sem bækistöðvar fyrir olíuleit.

„Það var gott verkefni þar sem við nýttum styrkleika sveitarfélaganna til frekari uppbyggingar. Ég held að það hafi styrkt samband sveitarfélaganna að vinna svo náið saman að stóru verkefni. Ég held að háskólasetrið verði líka frábært dæmi um slíkt samstarf, sem og Strætisvagnar Austurlands.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.