Lukka að köllin heyrðust ofan úr fjallinu

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði bjargaði í gærkvöldi erlendri konu sem hrapað hafði í fjallendi ofan við golfvöll staðarins. Hún gat látið vita af sér með hrópum. Illa hefði getað farið ef neyð hennar hefði ekki uppgötvast fyrir nóttina.

„Inni á golfvelli var eldri maður að dunda sér og fannst heyra kallað ofan í fjallinu. Hann var ekki viss en hitti á lögreglumann á frívakt og sagðist ekki getað látið þetta fara framhjá sér.

Þeir fóru inni eftir ásamt fleirum og heyrðu þar líka hljóðin. Þá var hringt á björgunarsveitina,“ segir Guðjón Már Jónsson, björgunarsveitarmaður sem var í stjórnstöðinni í gærkvöldi.

Útkallið barst um klukkan tíu í gærkvöldi og var þá farið að dimma hratt. Flygildum var flogið upp í fjallið auk þess sem björgunarsveitarfólk fór gangandi upp í fjallið og fann konuna um 40 mínútum eftir að útkallið barst. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en snúið við. „Viðbragðs- og flugtíminn er það langur hingað austur að við erum oft búin að leysa málin áður.“

Guðjón segir að konan hafi verið skorðuð í um 150 metra hæð yfir sjávarmáli á klöpp sem vatn hafi runnið eftir. Hún kvartaði undan verkjum í baki og var orðin töluvert köld. Ekki er ljóst hve hátt fall konunnar var en hún lá undir þriggja metra háum kletti og ljóst er að hún hafði að minnsta kosti fallið niður hann.

„Hún var orðin máttfarin og greinlegt að hún hafði kallað mikið. Ég er ekki viss um að hún hefði haft nóttina af. Það var mildi að maðurinn var þarna á golfvellinum,“ segir Guðjón.

Konan var komin í sjúkrabíl á golfvellinum um klukkan hálf eitt og flutt í Egilsstaði þaðan sem flogið var með hana suður til Reykjavíkur.

Guðjón segir björgunina hafa gengið vel en aðstæður voru ekki auðveldar. „Vegna ástands hennar gekk nokkuð vel að koma konunni á börurnar. Þarna var líka það bratt að björgunarsveitarfólk átti erfitt með að fóta sig. En eftir að konan var komin á börurnar gekk þetta tiltölulega vel.“

Guðjón bendir ennfremur á að atvikið sýni þörfina á að þeir sem hyggja á fjallaferðir skilji eftir sig ferðaáætlun. „Mér vitanlega var enginn farinn að sakna hennar á þessum tíma.“

Mynd af vettvangi: Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.