Loppa er nýja sjoppan á Fáskrúðsfirði

Í sumar opnaði söluskálinn á Fáskrúðsfirði aftur þegar nýjir rekstraraðilar tóku við en hann hafði þá verið lokaður frá áramótum. Parið Birgir Björn Birgisson og Eydís Lilja Ólafsdóttir tóku við skálanum og segir Birgir að reksturinn fari vel af stað. 

„Þetta gengur bara mjög vel, ég hugsa að svona 70% af okkar viðskiptavinum sé fólk héðan úr nágrenninu, Fáskrúðsfirðingar og fólk úr næstu þorpum sem verslar nauðsynjavörur ýmiskonar eins og fyrir bílinn og svoleiðis. Útlendingarnir eru ekkert mikið að sækja í svona sjoppu nema helst til að fara á klósettið. Ég tók samt eftir því eftir að ég setti upplýsingar á google maps um þjónustuna hjá okkur; að við værum með grill, súpu, wifi og fleira, þá hefur heimsóknum ferðamanna fjölgað,“ segir Birgir Björn. 

Nýja nafnið á skálanum er óvenjulegt og skemmtilegt en fyrirtækið heitir Loppa. „Það eru margir búnir að spyrja okkur útí nafnið en ég kann í rauninni enga skýringu aðra en að mér finnst þetta fallegt. Mig vantaði eitthvað sem er stutt og þjált sem að útlendingar jafnt og íslendingar geta borið fram og munað. Mér finnst þetta bara fallegt orð og loppan sem merki líka falleg svo þetta varð niðurstaðan.“

Birgir segir reksturinn hefðbundinn. „Þetta er í rauninni bara týpísk vegasjoppa. Við erum með mat, hamborgara, pylsur, franskar, nagga og súpur. Svo erum við hægt og rólega að auka úrvalið í mat, prófa okkur áfram og finna hvað virkar. Við erum með sælgæti og þessháttar og nauðsynjavörur fyrir bílinn; olíur, sápur, ilmspjöld og allt þetta. Að auki eru það svo spilakassarnir og lottóið, sem er náttúrulega ákveðin þjónusta.“

Birgir segist lengi hafa verið að horfa í kringum sig eftir möguleikum fyrir eigin rekstur og þegar söluskálinn losnaði hafi þau ákveðið að grípa tækifærið. „Mig hefur alltaf langað til að fara í sjálfstæðan rekstur. Ég hef bara verið svona að skoða hvað væri í boði og hvernig fyrirtæki maður gæti stofnað. Ég hugsaði að þetta væri öruggari rekstur en margt annað, ég hafði til dæmis hugsað um krana- og vörubílarekstur, ég hugsa að það gæti verið sveiflukenndara og árstíðabundnara og meðan þetta er nokkuð stöðugt. Eins hentar þetta ágætlega með fjölskyldu, við stjórnum tíma okkar hérna sjálf getum skipst á og hjálpast að. Þetta var eiginlega bara rakið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.