Lokað í Stefánslaug í Neskaupstað fram yfir helgi vegna verkfalls

Sundáhugafólk í Neskaupstað mun þurfa að leita annað en í Stefánslaug um helgina ef ekki tekst að leysa kjaradeilur BSRB og samninganefndar sveitarfélaga í dag eða á morgun.

Fimm starfsmenn Stefánslaugar af níu munu hefja tímabundið verkfall á miðnætti annað kvöld og stendur það verkfall fram til miðnættis á mánudaginn kemur. Fimmenningarnir eru í verkalýðsfélaginu Kili sem aftur er aðili að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja [BSRB] sem að verkfallinu stendur.

Austurfrétt náði tali af Stefaníu Helgadóttir, starfsmanni Stefánslaugar, sem sagði alla ætla að standa fast á sínu og var þakklát fyrir að fastagestir sundlaugarinnar og aðrir íbúar í Neskaupstað hafa sýnt þessu komandi verkfalli starfsfólksins mikinn skilning þrátt fyrir hugsanleg óþægindi.

„Svo sannarlega. Auðvitað kemur þetta illa við marga sem laugina sækja dags daglega ef af verður en það hafa allir skilning á hvað við erum að gera og hvers vegna. Enda erum við ekki að gera þetta að gamni okkar. Sveitarfélögin vilja ekki semja við stéttarfélögin okkar. Þau vilja ekki að við sitjum við sama borð og aðrir hvað varðar kjarasamninga en við erum að krefjast þess að þeir verði afturvirkir til jafns við alla aðra launþega sem samið var við fyrr á árinu. Við viljum bara sömu kjör yfir sama tímabil og aðrir eða með öðrum orðum að fá það sem allir aðrir hafa fengið. Ég veit ekki hvernig það getur verið óeðlileg krafa.“

Stefanía og félagar hennar eru þegar byrjuð að skarta gulum vestum sem er gjarnan einkennisklæðnaður þeirra sem hafa eftirlit með verkfallsbrjótum. Sem vekur upp spurningar um nauðsyn þess þar sem aðeins fimm einstaklingar starfa í Stefánslaug.

„Vestin eru meira táknræn en að við höfum beinlínis áhyggjur af verkfallsbrotum. Okkur langar að fólk viti hvers vegna við erum að grípa til þessa úrræðis og vestin vekja athygli sem verður til þess að fólk sem ekki þekkir til kannski kemur til okkar og forvitnast. Okkur finnst á okkur brotið og ætlum ekki að sætta okkur við það þó fá séum.“

Verkfallið nú er tímabundið í tvo sólarhringa en ekki er útilokað að annað verkfall komi til ef enginn samningsvilji mælist hjá sveitarfélögunum í kjölfarið.

Gulu vestin eru meira táknræn en nokkuð annað en vekja athygli á málstað sundlaugarstarfsmannanna. Mynd aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.