Lög um Skógræktina samþykkt á Alþingi: Ekki oft sem starfsmenn lýsa ánægju með sameiningu

Frumvarp um nýja skógræktarstofnun var samþykkt á Alþingi í dag með öllum greiddum atkvæðum. Þeir þingmenn sem tóku til máls lýstu yfir ánægju sinni með málið.


Með samþykkt frumvarpsins gengur í gegn sameining Skógræktar ríkisins við landshlutaverkefni í skógrækt undir merkjum Skógræktarinnar. Höfuðstöðvar stofnunarinnar verða á Egilsstöðum.

Frumvarpið byggir á vinnu starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði um aukið samstarf stofnana inna ráðuneytisins. Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður frá Fáskrúðsfirði, fór fyrir hópnum.

„Ég tel þessar breytingar mikilvægan grunn að áframhaldandi þróun nýrrar atvinnugreinar. Auk þess skipta þær miklu máli fyrir þróun umhverfisverndarstarfs og hvernig við vinnum að okkar umhverfismálum,“ sagði hún við atkvæðagreiðsluna í dag.

Hún sagðist ánægð með samstöðuna um frumvarpið en líka að hún vissi af áhyggjum skógarbænda. Hún ítrekað að þeir og ný stofnun hefðu áfram með sér góða samvinnu.

Elín Hirst og Vilhjálmur Árnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins auk Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra tóku einnig til máls og lýstu ánægju sinni með málið. Vilhjálmur og Elín sögðu sameininguna geta orðið fyrsta skrefið að frekari sameiningu stofnana á vettvangi umhverfismála.

Sigrún notaði tækifærið til að þakka Líneik Önnu fyrir hennar vinnu og nýjum skógræktarstjóra, Þresti Eysteinssyni sem tók til starfa um áramót, fyrir hans vinnu. „Það er ekki oft sem maður er gripinn á förnum vegi við sameiningu stofnana sem lýsa yfir ánægju sinni.“

Í kjölfarið er gert ráð fyrir breytingum á lögum um skógrækt sem að stofni eru frá árinu 1955.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.