„Lömdum húsið að utan af öllum lífs og sálarkröftum“

Snör viðbrögð þriggja íbúa á Djúpavogi skiptu máli þegar eldur kom upp í íbúðarhúsi þar á laugardagskvöld þar sem þeim tókst að vekja sofandi húsráðanda. Þau segjast hafa fengið mikilvæga aðstoð frá Neyðarlínunni

„Konan mín sér reykinn í húsinu og bendir mér á hann. Ég fer á svæðið og hringi strax á Neyðarlínuna. Síðan börðum við húsið að utan, öskruðum inn um opna glugga og náðum að vekja manninn,“ segir Brynjólfur Reynisson, íbúi á Djúpavogi.

Brynjólfur var fyrstur á vettvang ásamt konu sinni Guðnýju Björgu Jónsdóttir og Guðmundi Má Karlssyni, sem átti leið þar hjá. Þeim leist ekki á aðkomuna.

„Hún var skuggaleg. Það var fullt af svörtum reyk sem lagði út um þá glugga sem voru opnir. Það var ekki ekki séns að reka andlitið inn. Eftir að maðurinn var kominn út lokuðum við dyrum og gluggum. Ég þurfti að leggjast á fjóra fætur við að loka dyrunum,“ segir Brynjólfur.

„Við lömdum í húsið og hurðir af öllum lífs og sálarkröftum og orguðum inn um gluggana. Við náðum að berja á glugga í stofunni þar sem hann hafði sofnað.“

Húsráðanda tókst að komast út og samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði að slökkva eldinn með slökkvitæki, en útlit er fyrir að kviknað hafi í út frá eldavél. Hann var síðar fluttur undir læknishendur til aðhlynningar vegna reykeitrunar. Brynjólfur segir manninn hafa verið orðinn kolsvartan af reiknum, skelkaðan og áttavilltan er hann komst út. „Við töluðum við hann í gær og eins og hann segir sjálfur þá hefði hann trúlega ekki þolað mikið lengur við.“

Þríeykið var á staðnum uns slökkvilið kom á staðinn. Allan þann tíma var Brynjólfur í sambandi við Neyðarlínuna sem hann segir hafa skipt miklu máli. „Ég hef ekki komið að svona áður og hagaði mér því bara eftir því sem mér var sagt. Neyðarlínan sleppti mér ekkert úr símanum fyrr en slökkviliðið kom. Það er mikilvægt að geta haft fagfólk með sér við svona aðstæður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.