Lögregluþjónar í hættu við að stilla til friðar

Lögregluþjónar, sem kallaðir voru út um síðustu helgi vegna átaka í sumarbústaðahverfinu að Einarsstöðum á Héraði, lentu í kröppum dansi þegar hluti hópsins beindi spjótum sínum. Yfirlögregluþjónn segir atvikið tekið alvarlega.

„Það var reynt að tálma framgöngu lögreglu við skyldustörf og við lítum það alvarlegum augum,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Þrír voru fluttir á heilsugæsluna á Egilsstöðum til aðhlynningar eftir handalögmálin á Einarsstöðum aðfaranótt laugardags. Jónas segir að einstaklingar hafi ruðst inn í sumarbústað þar sem yngra fólk var að skemmta sér í þeim eina tilgangi að ráðast á það.

„Því unga fólki sem var þarna að skemmta sér var mjög brugðið. Atburðir sem þessir geta haft áhrif til langs tíma. Það er ekkert grín að fá óboðna gesti sem koma bara í einum tilgangi. Við höfum enga þolinmæði fyrir svona hegðun.“

Þeir sem fyrir árásinni urðu hringdu á lögreglu sér til varnar og mættu sjö lögregluþjónar á staðinn. Þegar þangað var komið snérust árásarmennirnir gegn lögreglufólkinu sem varð fyrir pústrum í áflogunum. Jónas segir meiðsli þeirra ekki alvarlega en aðspurður játar hann því að lögregluþjónar hafi verið í hættu.

Áður en yfir lauk voru tveir einstaklingar handteknir og vistaðir í fangageymslu fram til morguns þegar þeir voru yfirheyrðir. Jónas segir að rannsókn málsins sé í ferli, verið sé að safna gögnum og teknar hafi verið skýrslur af þeim sem stóðu að látunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.