Lögreglu grunar að um sé að ræða skipulagða brotastarfssemi

„Við viljum hvetja fólk til þess að læsa húsum sínum og vera á varðbergi,“ segir Elvar Óskarsson, fulltrúi lögreglunnar á Austurlandi, vegna fjölda innbrota á svæðinu að undanförnu.


Lögreglan á Austurlandi sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í gær;

„Í hádeginu í dag kom íbúi á Fáskrúðsfirði að óprúttnum aðila inni í íbúð sinni. Þessi aðili komst undan á hlaupum auk þess sem hann veitti íbúanum bylmingshögg í kviðinn. Lögregla veitti í framhaldi bifreið sem maðurinn var í eftirför þar sem henni var ekið á ofsaferð frá Fáskrúðsfirði á Breiðdalsvík. Þar setti lögregla upp stöðvunarpóst sem ökumaður bifreiðarinnar sinnti ekki og var henni ekið fram hjá lögreglubifreiðinni og út af veginum. Bifreiðin var þó á lítilli ferð þegar henni var ekið útaf svo ekki hlutust slys af. Tveir aðilar sem voru í bifreiðinni voru handteknir og eru þeir nú í haldi lögreglu, grunaðir um þjófnaðarbrot á nokkrum stöðum á landinu. Lögreglu grunar að um sé að ræða skipulagða brotastarfssemi.“

Mennirnir eru í haldi lögreglu
Mennirnir, sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar, eru enn í haldi lögreglu. „Við búum orðið við þann veruleika að skipulögð glæpastarfsemi nær um alla Evrópu, til Íslands og alveg eins inn í sveitina eins og eitthvað annað. Þegar við tölum um skipulagða starfsemi þá erum við að horfa til þess að þetta er ekki eitt tilviljunarkennt brot, heldur erum við líklega í þessu tilfelli að sjá að þessir aðilar teygja anga sína víða um land,“ segir Elvar.

Um síðustu helgi upplýsti lögreglan á Austurlandi innbrot í nokkra sumarbústaði á Einarsstaðasvæðinu á Héraði. Að sögn Elvars tengjast þau mál þessu ekki með nokkrum hætti.

Nágrannavarsla skiptir máli
Elvar vill hvetja alla til þess að huga að eigum sínum. „Það liggur í augum uppi að við hvetjum alla til þess að læsa húsum sínu, þó svo það dugi ekki alltaf til, þá er aðgangurinn í það minnsta ekki eins greiður að læstum húsum.“

Aðspurður hvort nágrannavarsla skipti ekki miklu málil, sérstaklega yfir sumarið þegar menn eru mikið á faraldsfæti, segir Elvar; „Jú, hún gerir það. Ég held að heilt yfir hér í fámenninum á landsbyggðinni sé hún öflug – menn fylgjast vel með fyrir nágrannann.“Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar