Orkumálinn 2024

Löglærður fulltrúi ekki endanlega niðurlagður

Ekki verður ráðið í stöðu löglærðs fulltrúa sýsluskrifstofunnar á Eskifirði þegar Sigrún Harpa Bjarnadóttir lætur af störfum 1. desember. Ekki er þó um endanlega niðurlögn stöðunnar að ræða. Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur sent frá sér harðorða bókun um málið.

Í bókuninni, sem stíluð er á þingmenn Norðausturkjördæmis og undirrituð af Karli Óttari Péturssyni, bæjarstjóra, segir að athygli bæjarráðs Fjarðabyggðar hafi verið vakin á því að leggja eigi stöðu löglærðs fulltrúa á Eskifirði niður. Í reglugerð frá 2014 sé hins vegar kveðið á um að á Eskifirði skuli vera sýsluskrifstofa og ljóst sé að þar hljóti að eiga að starfa löglærður fulltrúi. Síðan segir orðrétt:

„Því hafnar bæjarráð Fjarðabyggðar með öllu að Sýslumaðurinn á Austurlandi leggi niður stöðu löglærðs fulltrúa á sýsluskrifstofunni á Eskifirði og mun ekki sætta sig við slík vinnubrögð. Enda væri það ankannalegt að í Fjarðabyggð starfaði engin slíkur fulltrúi en í hinu nýsameinaða sveitarfélagi Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Borgarfjarðar og Djúpavogs, séu bæði aðalskrifstofa og sýsluskrifstofa embættisins með tveimur fulltrúm og Sýslumanni. Þá verður að horfa til þess að í Fjarðabyggð eru m.a. flestar þinglýsingar og mestar tekjur af starfsemi hjá Sýslumanninum á Austurlandi. 
Ef það reynist satt að leggja eigi niður starf löglærðs fulltrúa í Fjarðabyggð er um að ræða óásættanlega stjórnun embættisins.“

Lárus Bjarnason, sýslumaður á Austurlandi, segir að ekki sé verið að leggja stöðuna endanlega niður, en það verði ekki ráðið í hana að sinni í það minnsta. Eins og kunnugt sé hafi sýslumannsembættin verið að draga saman seglin, meðal annars með því að minnka starfshlutfall starfsmanna og ráða ekki í störf sem fólk hættir í fyrir aldurs sakir, eða segir upp af öðrum ástæðum. Sú leið hafi verið valin fremur en segja upp fólki.
„Við erum í skuld við ríkið og sjáum einfaldlega ekki fram á að eiga fyrir stöðunni, ekki að sinni að minnsta kosti,“ segir Lárus. „Í augnablikinu bendir ekkert til þess að sýslumannsembættin fái aukið fjármagn frá ríkinu á næstunni. En ég er sammála því að æskilegt væri að hafa löglærðan fulltrúa á Eskifirði áfram. Það er mikill missir að Sigrúnu Hörpu, hún hefur sinnt þessu starfi einstaklega vel,“ segir Lárus.

Það er rétt að geta þess að nú liggur fyrir Alþingi frumvarp þar sem lagðar eru til breytingar á lögum nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Markmiðið er að skapa aðstæður svo ráðherra og sýslumenn geti náð fram fjárhagslegri hagræðingu í rekstri embættanna og stuðlað að nauðsynlegri framþróun í málefnum sýslumanna, svo vitnað sé orðrétt í frumvarpið. Einnig er lagt til að ráðherra verði heimilt að skipa einhvern starfandi sýslumann yfir annað sýslumannsembætti sem losnar af einhverjum ástæðum, til allt að fimm ára, án þess að staðan sé auglýst, og hann hafi heimild til að gegna því samhliða eigin embætti, teljist það hagkvæmt og skynsamlegt. Frumvarpið hefur ekki verið samþykkt, en verður væntanlega tekið til meðferðar fljótlega. Nokkur sveitarfélög hafa mótmælt frumvarpinu formlega, þar á meðal Fljótsdalshérað.




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.