Loðnuvinnslan óttast að mengun frá auknu laxeldi skaði Fáskrúðsfjörð

Stjórn Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði mótmælir áformum um laxeldi í Fáskrúðsfirði. Eldi á allt að 15.000 tonnum af laxi í firðinum eru í umsagnarferli.

Í yfirlýsingu Loðnuvinnslunnar er lagst gegn áformunum vegna þeirra umhverfisáhrifa sem eldið kann að hafa á fjörðinn.

Bent er á að almennt sé miðað við að við framleiðslu á einu tonni af laxi verði til úrgangur sem samsvari klóakrennsli frá átta manns. Mengun frá 15.000 tonna laxeldi samsvari því að skólpi frá 120 þúsund manna byggð verði veitt óhreinsuðu í fjörðinn.

Það hafi áhrif á hrognavinnslu fyrirtækisins en undirstaða hennar er mikið magn af hreinum sjó sem dælt er úr firðinum. Hrognavinnslan er 20% af framleiðsluverðmæti fyrirtækisins sem hefur 150 manns í vinnu.

Stjórnin gerir alvarlega athugasemd við að ekki hafi verið leitað til fyrirtækisins um umsögn um áformin. Þá sé hvergi í frummatsskýrslu minnst á þann möguleika að mengandi efni frá eldinu geti haft áhrif á gæði sjávarins og þar með hrognavinnslu á Fáskrúðsfirði.

Þá bendir stjórnin á að staðsetning sjókvía sé á reiki, umfangið sé sýnt frá því að vera mjög lítið í að nánast loka firðinum. Þar sem gert sé ráð fyrir mestri starfsemi sé fjörðurinn um 1300 metrar á breidd og siglingaleiðin innan við 400 metrar. Því sé ljóst að fyrirhugað eldi þrengi verulega að siglingaleiðum.

Þá telur stjórnin óskiljanlegt að sveitarfélagið Fjarðabyggð skuli ekki hafa neina lögsögu í máli sem varði undirstöðu atvinnu á Fáskrúðsfirði heldur sé hún algjörlega á valdi Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar.

Þegar er leyfi fyrir framleiðslu á þrjú þúsund tonnum af eldisfiski í firðinum. Það leyfi er ekki enn nýtt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar