Loðnuvinnslan kaupir nýtt Hoffell

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði hefur skrifað undir samninga vegna kaupa á nýju Hoffelli. Það heitir í dag Asbjørn og kemur frá Danmörku. Framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar segir nýja skipið mikið framfaraskref fyrir útgerðina. Eldra Hoffell gengur upp í kaupin.

Skrifað var formlega undir samninga seinni partinn í gær. Nýja skipið var smíðað í dönsku skipasmíðastöðinni Karstens árið 2008 og bar nafnið Gitte Henning fram til ársins 2013 að það fór til nýrra eigenda í Hirtshals.

Það er því níu árum yngra en það Hoffell sem yfirgaf Fáskrúðsfjörð í síðasta sinn á laugardagskvöld en en það kom þangað árið 2014. Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir að það skip hafi verið mikið framfaraspor fyrir bæði fyrir fyrirtækið og byggðarlagið og spáir því að nýja skipið reynist álíka bylting.

„Það var bylting að fá skipið sem við keyptum fyrir átta árum og við höfum verið mjög heppin með það skip en þetta veðrur álíka skip.

Þetta er nauðsynleg breyting því lengra er orðið á makrílmiðin en áður auk þess sem langt getur verið að sækja síld, kolmunna og loðnu til hrognatöku. Þá er betra að vera með burðarmeira skip. Hér heima höfum við stækkað frystinguna um 70% þannig hún getur tekið á móti meira magni. Þess vegna talar þetta allt saman,“ segir hann.

Nýja skipið tekur 2.530 rúmmetra í lest samanborið við 1.650 rúmmetra á eldra skipinu sem er 53% stærra. Þá er vél þess 8.100 hestöfl samanborið við 5.900 hestöfl sem þýðir 40% meiri togkraft. Það er 75,4 metra langt og 15,6 metra breitt og nær allt að 18,2 hnúta hraða samanborið við 68,1x12,6 metra.

Bæði skipin eru nú komin í skipasmíðastöðvar í Noregi þar sem lokaskoðun fer fram fyrir afhendingu. Nýja skipið verður málað grænt í stíl Loðnuvinnslunnar áður en það siglir heim. Búist er við því til Fáskrúðsfjarðar um aðra helgi, eða eftir um tíu daga. Það verður þá gert klárt beint til makrílveiða.

Nýja Hoffell undirbúið fyrir heimferðina. Mynd: Loðnuvinnslan/Högni Páll Harðarson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.