Litlar líkur taldar á að börn hafi smitast

Börn, sem fóru með skólabíl úr Eiða- og Hjaltastaðaþinghám í lok síðustu viku, eru komin í sóttkví eftir að bílstjóri þeirra greindist með Covid-19 smit. Litlar líkur eru taldar á að börnin hafi smitast af bílstjóranum.

Skólahald í grunnskólunum í Fellabæ og á Egilsstöðum hefur verið fellt niður í dag meðan brugðist er við þeirri staðreynd að bílstjórinn var greindur með smit síðdegis í gær og verið er að fullklára smitrakningu.

Í tilkynningu frá Egilsstaðaskóla segir að bílstjórinn hafi síðast ekið með skólabörn á föstudag. Þau börn sem fóru með bílnum fimmtudag og föstudag í síðustu viku eru komin í sóttkví.

Þau verða í sóttkvínni fram á föstudag þegar sýni verður tekið úr þeim, en tíma tekur að fyrir veiruna að verða nógu öfluga þannig að hún mælist. Ef ekkert kemur í ljós í skimuninni verða börnin frjáls ferða sinna á ný. Rakningarteymi almannavarna mun hafa samband við foreldra barnanna með frekari upplýsingar og ráðgjöf.

Í tilkynningu skólans segir að litlar líkur séu taldar á að bílstjórinn hafi smitað nemendur þegar horft er til þeirra samskipta sem hann á við börnin þar sem þess hafi verið gætt við skólaakstur að fara eftir öllum sóttvarnareglum.

Þar kemur ennfremur fram að foreldrar fái frekari upplýsingar frá skólastjórnendum eigi síðar en á hádegi í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.