Orkumálinn 2024

Litlar breytingar fyrir flesta

Sléttar þrjár vikur eru í dag liðnar síðan síðast greindist covid-19 smit á Austurlandi. Íbúar eru minntir á að kynna sér breyttar reglur samkomubanns sem taka gildi eftir helgi.

Farið er yfir helstu breytingar í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands í dag en bent á að breytingarnar séu almennt ekki veigamiklar.

Heimilt er að 50 einstaklingar safnist saman á sama stað í stað 20 áður, en þó þarf að vera tryggt að þeir geti haft tveggja metra bil á milli sín. Fjöldi í matvöruverslunum og lyfjaverslunum er óbreyttur.

Tannlæknaþjónusta, sjúkraþjálfun, öku- og flugkennsla er heimil á ný auk starfsemi nudd-, hárgreiðslu- og snyrtistofa. Sama er að segja um akstur þjónustubifreiða.

Æfingar og keppnir skipulagðs íþróttastarfs eru heimilar án áhorfenda. Snertingar eru óheimilar og halda skal tveggja metra bili. Ekki er heimilt að nota búnings- eða sturtuklefa. Þá mega ekki fleiri en fjórir vera saman innandyra í 800 fm rými. Skólasund er heimilað sem og sundæfingar eru fyrir allt að sjö manns í einu en sundstaðir eru annars lokaðir.

Starfsemi leik- og grunnskóla er heimil og án takmarkana sem og íþrótta- og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Sama á við um starfsemi dagforeldra, frístundaheimila og aðra lögbundna þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Einnig á þetta við um tónlistarnám barna á leik og grunnskólastigi.

Reglurnar í heild sinni er að finna á vef stjórnarráðsins. Aðgerðastjórn hvetur íbúa til að kynna sér þær vel og minnir á að þótt ýmislegt sé heimilt sé það skilyrðum háð.

„Fyrir þau okkar sem ekki eru á leik- eða grunnskólaaldri og ekki í skipulögðu íþróttastarfi er staðan meira og minna sú sama og áður. Við megum þó fara í sjúkraþjálfun til að mynda og til hárskera. Gleðjumst yfir því og þrömmum svo þennan stíg saman líkt og við höfum gert fram til þessa," segir í tilkynningunni.

Sex eru nú í sóttkví á Austurlandi. Enginn er í einangrun vegna smits.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.