Orkumálinn 2024

Líkur á snjókomu á gamlárskvöld

Líkur eru á að um kvöldmat á gamlárskvöld byrji að snjóa á Austurlandi. Magnið verður samt ekki slíkt að það hamli brennum eða flugeldaskotum þótt eitthvað gæti dregið úr skyggni.

Framan af degi er útlit fyrir vestanvind, 8-13 m/s en bjartviðri. Þegar líður á daginn lægir. Um kvöldið snýst í austanátt, 8-13 m/s með snjókomu og jafnvel skafrenningi.

Von er á þessum úrkomubakka um klukkan sjö eða átta um kvöldið. Þær upplýsingar fengust hjá Veðurstofu Íslands í morgun að snjókoman verði ekki veruleg og ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu að kveikja í áramótabrennum eða skjóta upp flugeldum þótt snjómuggan geti mögulega dregið úr skyggni þannig að ekki sjáist vel upp í himininn.

Von er á að hvassara verði út við ströndina heldur en inn til landsins og veðrið eystra verður væntanlega töluvert betra en á Suður- og Vesturlandi þar sem gular viðvaranir verða í gildi.

Á nýársnótt snýst vindur síðan til norðurs og hvessir þá eilítið. Á nýársdag lægir aftur. Spár fyrir nýárið gera jafnvel ráð fyrir rigningu og hita á mánudagskvöld en Veðurstofan bendir á að enn sé of mikið flökt í spám til að slá nokkru föstu um það.

Í morgun hefur verið unnið að moka snjó af vegum eftir ofankomu og kóf síðustu daga. Varað er við að leiðir séu einbreiðar á köflum svo sem í Fellum, Fagradal og Suðurfjörðum. Víða er enn kóf eða snjókoma og hált þótt vegirnir séu orðnir þokkalega færir.

Þá vinna sveitarfélögin að því að ryðja götur í þéttbýli. Í Fjarðabyggð hafa biluð tæki tafið fyrir vinnunni á Eskfirði og í Neskaupstað síðustu daga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.