Líkur á að hámarkinu verði síðar náð á Austurlandi

Líkur eru á að hámark covid-19 faraldursins verði síðar á Austurlandi heldur en að meðaltali á landsvísu. Vika er nú síðan fyrsta smitið greindist í fjórðungnum, tæpum fjórum vikum á eftir því fyrsta í landinu. Sóttvarnalæknir telur ekki hyggilegt að gefa upp fjölda smita í einstökum byggðarlögum.

Þetta er meðal þess sem fram hefur komið á upplýsingafundum Almannavarna síðustu daga.

Alma Möller, landlæknir var á sunnudag spurð að því hvort líkur væru á að faraldurinn yrði mikið síðar á ferðinni á Vestfjörðum og Austurlandi, þar sem enn hafa fremur fá smit greinst en annars staðar. Samkvæmt spálíkani heilbrigðisvísindadeildar Háskóla Íslands er reiknað með hármarki faraldursins hérlendis í næstu viku.

„Almennt reikna ég ekki með að faraldurinn seinki á þessum stöðum um marga mánuði, það er frekar reiknað í í vikum en mánuðum eftir hvernig smit breiðist út innan landa. Þessi svæði gætu orðið einhverjum vikum á eftir,“ svaraði hún.

Aðspurður um hlutfall smitaðra í samfélaginu hefur Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, bent á að tölur úr rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar bendi til þess að það sé um 1%. Um það sé hins vegar erfitt að segja. „Það virðist vera breytilegt eftir svæðum. Veiran virðist ekki vera komin af eins miklum þunga á öll svæði.“

Ekki sundurgreint eftir póstnúmerum

Samkvæmt síðustu tölum eru sex einstaklingar með covid-19 smit á Austurlandi. Ekki hefur fengist uppgefið í hvaða byggðarlögum þeir búa. Á upplýsingasíðunni covid.is er fjöldi smitaðra sundurliðaður eftir heilbrigðisumdæmum. Þórólfur hefur lagst gegn því að hann verði sundurliðaður enn frekar.

„Ég held að það sé ekki sniðugt að gefa það út í ákveðnu póstnúmeri séu 1-2 með sjúkdóminn. Þá erum við komin inn á friðhelgi einkalífs. Ég held held að það þjóni ekki miklum tilgangi. Ég hef lagt til við lækna og lögreglu að gera það ekki. Ég held að það sé nóg að það komi fram hvernig staðan er í einstökum landshlutum.

Ég veit að í fámennari byggðum eru menn fljótir að frétta hluti. Það er allt annað mál. Ég held að opinberir aðilar eigi ekki að gefa þetta uppi,“ sagði Þórólfur, sem að hluta ólst upp á Eskifirði.

Hann hefur sömuleiðis ítrekað talað gegn samgöngubanni milli einstakra landshluta eða landsins í heild. „Ef við gætum lokað okkur af í 1-2 ár og verið trygg um að það kæmi bólefni þá myndum við gera það en það myndu valda ofboðslegum skaða á samfélaginu. Við getum mildað faraldurinn og seinkað honum en ekki sloppið. Við höfum fylgt fræðilegum leiðbeiningum og fetað einstigið milli þess að gera of mikið og of lítið.“

Mæðir æ meira á landsbyggðinni

Nokkuð hefur verið rætt um getu minni heilsugæsla og stofnana til að takast á við covid-19 smit. Á annan tug starfsmanna Heilbrigðisstofnunar Austurlands voru settir í sóttkví í síðustu viku eftir að starfsmaður stofnunarinnar reyndist smitaður. Meðal þeirra voru bæði læknir og hjúkrunarfræðingur Vopnfirðinga.

„Ég vil hrósa og þakka öllum heilbrigðisstarfsmönnum. Það mæðir æ meira á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslu á landsbyggðinni. Þær koma nú meira að málum. Þar hafa allir undirbúið sig vel og eru tilbúnir,“ sagði Alma.

Þá hefur Þórólfur ítrekað að nóg sé til af lyfjum og öðrum nauðsynlegum efnum í landinu. „Það gildir um landið allt, stóra staði sem smáa.“

Fram hefur komið að Austfirðingar sem veikjast illa af covid-19 veirunni verði annað hvort fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri eða Landsspítalann til aðhlynningar. Það yrði gert í sérstökum hylkjum til að vernda þá og hindra smit. „Það eru nokkur svona hylki til og verið að útvega fleiri,“ sagði Alma.

Hún segist ekki óttast að illviðri komi í veg fyrir að hægt verði að flytja fólk á milli staða. „Við höfum sjúkraflugið og svo er Landhelgisgæslan með sínar þyrlur í viðbragðsstöðu. Þær geta flogið í nánast hvaða veðrum sem er.“

Ferðalög gætu aukið álagið á veik umdæmi

Á upplýsingafundinum í dag var lögð sérstök áhersla á að fólk héldi sig heima um páskana, frekar en leggja í langferðir. Vonast er til að ekki þurfi að grípa til frekari takmarkana á ferða- og samkomufrelsi en þegar hefur verið gert.

En ferðatakmarkanirnar eru líka til að verja minni heilbrigðisstofnanir. „Ef fleiri eru á ferðinni á vegunum og annars staðar þá eykur það líkurnar á slysum og álagi á heilbrigðiskerfið, sem þegar er þanið.

Annað atriði er ef fólk hópast saman á í sumarbústaðabyggðir, jafnvel þúsundir á heilbrigðissvæði sem eru veik fyrir. Þau eiga nóg með að sinna þeim íbúum sem þar eru. Þetta gæti valdið álagi sem kerfið er ekki byggt fyrri að öllu jöfnu,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.