Líklegt að til verði skógar eingöngu til að binda kolefni

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á skógrækt verða í brennidepli á fagráðstefnu skógræktarinnar sem haldin verður á Hallormsstað í næstu viku. Þar verður meðal annars rætt um hvernig nýjar alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum skapa ný tækifæri fyrir skógræktendur.

Fagráðstefnan er haldin árlega og flakkar um landið. Yfirskrift hennar að þessu ári er „Öndun léttar“ og er kastljósinu beint að landnotkun og loftslagsmálum.

Skógræktin og Landgræðslan hafa borið þungann af skipulagningu hennar, ásamt öðrum hagsmunasamtökum í skógrækt, en stofnunum er í nýrri loftslagsáætlun falið að vinna saman að bindingu gróðurhúsalofttegunda. Sú tilskipun hefur leitt til aukins samstarfs stofnananna.

„Menn sjá mikil tækifæri í auknum fjárframlögum til landgræðslu og skógræktar. Með aukinni þekkingu og tækni koma í ljós betri og betri tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að binda kolefni.

Við eigum mikið af illa förnu landi sem eftir er að græða og bæta. Með kynbótum trjátegunda fáum við líka betri efnivið í skógrækt þannig það er bjart yfir íslenskri skógrækt,“ segir Pétur Halldórsson, upplýsingafulltrúi Skógræktarinnar sem sæti á í undirbúningshópi ráðstefnunnar.

Pétur verður meðal fyrirlesara en á seinni degi ráðstefnunnar flytur hann ásamt Gunnlaugi Guðjónssyni, fjármálastjóra stofnunarinnar, fyrirlestur um markað fyrir kolefnisbindingu. Erlendis er farið að votta skóga til kolefnisbindingar og geta þá þeir sem vilja bæta fyrir mengun sína keypt bindingu af skógræktendum.

„Það er mjög líklegt að í framtíðinni verði til skógar sem eingöngu eru skipulagðir til að binda kolefni. Þetta kallar á að farið sé ofan í saumana á ræktun skóga, til dæmis að gróðursetja gisnar til að ná fleiri hekturum í bindingu,“ segir Pétur.

Ráðstefnan er haldin á miðvikudag og fimmtudag á Hallormsstað. Hún er öllum opin en skrá þarf þátttöku fyrir 1. apríl á vef Skógræktarinnar. Þar er einnig að finna ítarlegri dagskrá.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.