Óli Bæjó: Skammast mín fyrir mismun á áætlun og raunútkomu

oli_hr_sig_sfk.jpgÓlafur Hr. Sigurðsson, fráfarandi bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, segist mjög ósáttur við að útkoman á rekstri sveitarfélagsins hafi verið 20 milljónum lakari en ráð var fyrir gert á seinast ári. Skömmu fyrir kosningar hafi forsvarsmenn sveitarfélagsins skort pólitískt hugrekki til að ráðast í nauðsynlegan niðurskurð í skólamálum.

 

 

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2010 var réttum megin við núllið. Í þeim áætlunum var meðal annars gert ráð fyrir álkaplaverksmiðju sem nú virðist ekki ætla að rísa á Seyðisfirði. Ólafur segir að of miklar væntingar hafi verið gerðar til hennar.

Hefði orðið af verksmiðjunni hefði verið hægt að ráðast í „minniháttar lagfæringar á mannahaldi.“ Slíkt hefði lækkað launakostnað sveitarfélagins um einar tuttugu milljónir.

„Við gerðum ráð fyrir því þegar áætlun fyrir árið 2010 var gerð að hægt yrði samhliða ákvörðun um kapalverksmiðju að fara í „minniháttar“ lagfæringar á mannahaldi sem myndi skila sér síðari hluta árs 2010. Slíkar aðgerðir hefðu skila því að launahaldið hefði að minnsta kosti orðið einum 20 milljónum  lægra en það síðan varð.“

Dæmi um slíkar „minniháttar lagfæringar“ hefði verið hagræðing í skólamálum. „Fyrir kosningar 2010 var ég ekki bara bæjarstjóri heldur líka oddviti sjálfstæðismanna. Pólitíkusar eins og ég var þá þora ekki í svona aðgerðir á síðustu metrunum fyrir kosningar en það er í aprílmánuði sem eru síðustu forvöð til að breyta eitthvað til fyrir næsta skólaár. Þarna liggur mín sök.“

Ólafur segir sveitarfélagið hafa viljað styðja við atvinnulífið á Seyðisfirði á meðan beðið var eftir kaplaverksmiðjunni. Ekki hafi verið sagt upp og allir námsmenn með lögheimili verið teknir í sumarvinnu. Hækkanir á orkuverði og tryggingagjaldi vegi einnig þungt.

„Með öllu saman er rekstarniðurstaðan ársins mun betri en árið á undan. Hins vegar munar hér einum 20 milljónum á því sem niðurstaðan varð og því sem ég taldi að myndi verða og við það er ég mjög ósáttur og skammast mín fyrir það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.