Orkumálinn 2024

Lífeyrissjóður Neskaupstaðar tapaði minnstu

nesk.jpg
Lífeyrissjóður Neskaupstaðar tapaði átta milljónum króna á bankahruninu. Enginn lífeyrissjóður landsins tapaði jafn litlu í krónum talið. Heildareignir Lífeyrissjóðs Neskaupstaðar eru neikvæðar samanborið við heildarskuldbindingar og stendur sjóðurinn því ekki óstuddur undir skuldbindingum.
 

Þetta kemur fram í skýrslu nefndar sem rannsakaði fjárfestingar lífeyrissjóðanna fyrir hrunið og afleiðingar þess á sjóðina.

Lífeyrissjóðurinn tapaði þremur milljónum króna í hlutabréfasjóðum Kaupþings og fimm milljónum á skuldabréfum sem gefin voru út af Bakkavör. 

„Heildareign Lífeyrissjóðs Neskaupstaðar í verðbréfum var 498 mkr. í árslok 2009. Verðbréfaeign sjóðsins var fyrst og fremst í skuldabréfum með ríkisábyrgð og innlendum hlutdeildarskírteinum, sem skiptist í skuldabréfasjóði annars vegar og hlutabréfasjóði hins vegar. Árið 2008 var 91% af eign í skuldabréfasjóðum ríkisbréf og árið 2009 var það hlutfall komið í 98%.“

Hafa ber í huga að sjóðurinn er smár í sniðum samanborið við aðra lífeyrissjóði landsins. Árið 2009 voru aðeins tólf virkir sjóðsfélagar, það er þeir sem að jafnaði greiða iðgjöld til sjóðsins í hverjum mánuði. 

„Iðgjaldagreiðslur árið 2009 námu samtals 41 mkr. sem var hækkun um 2,5% frá árinu 2008. Ef bornar eru saman breytingar á hreinni eign milli ára á verðlagi ársins 2009 kemur í ljós að hrein eign hækkaði um 10,4% að meðaltali milli ára. Ástæða þessarar miklu hækkunar lá í uppgjöri á áföllnum skuldbindingum Síldarvinnslunnar hf. árið 2006 að fjárhæð 220 mkr.“

Raunávöxtun sjóðsins, þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá hreinum fjármunatekjum var jákvæð árin 2005-2008. 

Í árslok 2009 voru lífeyrisþegar 53 talsins, samanborið við 46 lífeyrisþega í árslok 2005. Heildareignir sjóðsins samanborið við heildarskuldbindingar voru neikvæðar frá 83% niður í 67% öll fimm árin sem eru til skoðunar. Heildareignir Lífeyrissjóðs Neskaupstaðar eru neikvæðar samanborið við heildarskuldbindingar og stendur sjóðurinn því ekki óstuddur undir skuldbindingum. 

Lífeyrissjóður Neskaupstaðar var stofnaður árið 1969 en var lokað fyrir nýjum sjóðsfélögum 1. júlí 1998. Einungis þeim, sem greiddu til  sjóðsins til júníloka 1998, var heimilt að greiða áfram  til sjóðsins, enda hafi iðgjald verið greitt til sjóðsins  óslitið frá þeim tíma. Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld  vegna starfa hjá Fjarðabyggð (Neskaupstað), stofnunum bæjarins, sjálfseignarstofnunum eða félögum  skrásettum í Neskaupstað sem bæjarfélagið á aðild að  voru iðgjaldaskyldir til sjóðsins. Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga hefur frá 1. júlí 2000 haft umsjón með og annast rekstur sjóðsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.