Leyft að ala 3000 tonn af regnbogasilungi í Fáskrúðsfirði

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi starfsleyfi til handa Fiskeldi Austfjarða til að ala 3000 tonn af regnbogasilungi á ári í Fáskrúðsfirði.

Samkvæmt starfsleyfinu fær Fiskeldi Austfjarða heimild til að ala fiskinn á þremur stöðum í Fáskrúðsfirði, við Höfuðhúsabót, Eyri og Fögrueyri. Alið er á tveimur stöðum í senn meðan þriðja svæðið er hvílt í ár. Leyfið gildir til ársins 2034.

Fyrirtækið hefur undanfarið ár haft undanþágu fyrir starfsleyfi eftir að eldra leyfi rann út um mitt síðasta ár. Þrátt fyrir leyfið er starfsemi ekki hafin þar.

Ein umsögn barst um umsóknina, sameiginleg frá félögum um verndun villtra laxa, náttúruverndarsamtökum og veiðifélögum í Breiðdal og Vopnafirði. Var þar meðal annars gerðar athugsemdir við undanþáguna og að nýja starfsleyfið færi ekki í gegnum umhverfismat.

Í svari Umhverfisstofnunar segir að þótt gefið hafi verið út nýtt starfsleyfi sé staðsetning og umfang starfseminnar óbreytt. Ríkari kröfur séu gerðar um vöktun í nýja leyfinu sem eigi að vera til bóta.

Þá er bent að þrátt fyrir að starfsleyfið hafi runnið út hafi verið í gildi rekstrarleyfi gefið út af Matvælastofnun til ársins 2022.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.