Orkumálinn 2024

Leyfir sér að vona að jákvæðara sé framundan í sauðfjárræktinni

Guðfinna Harpa Árnadóttir, bóndi á Straumi í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði, var á föstudag kjörin formaður Landssambands sauðfjárbænda. Hún vonast til að bjartari tímar séu framundan í sauðfjárrækt þar sem ýmislegt hafi áunnist á síðustu mánuðum

„Staðan er erfið eins og er en það eru ákveðnir jákvæðir þættir á lofti þannig maður leyfir sér að vona. Birgðastaðan er til dæmis orðin önnur en fyrir tveimur árum,“ segir Guðfinna Harpa.

Auk Guðfinnu Hörpu buðu sig fram þeir Trausti Hjálmarsson, Sigurður Þór Guðmundsson og Einar Freyr Elínarson. Einar Freyr dró framboð sitt til baka áður en kosið var og lýsti yfir stuðningi við Guðfinnu.

Í fyrri umferð fékk hún 18 atkvæði, Sigurður 14 og Trausti 7. Þar sem enginn frambjóðenda fékk hreinan meirihluta var kosið aftur milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði. Þá fékk Guðfinna 23 atkvæði og Sigurður 15 en einn seðill var auður.

„Margt gott fólk sem ég treysti hvatti mig til að bjóða mig fram. Ég hef brennandi áhuga fyrir framgangi greinarinnar og landssamtakanna þannig þetta togaði í mig,“ svarar Guðfinna aðspurð um hvers vegna hún bauð sig fram.

Guðfinna Harpa hefur meðfram búskapnum starfað hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins og verið formaður Félags sauðfjárbænda á Héraði og fjörðum. Hún gerir ráð fyrir að láta af formennskunni þar enda ærin verkefni sem bíða á vettvangi landssamtakanna.

„Ég hef ekki verið áður í stjórn landssamtakanna þannig ég þarf að koma mér inn í verkefnin og sjá hvar er best að byrja. Þar er ég heppin að hafa bæði öflugan framkvæmdastjóra og stjórnarmenn sem hafa verið áður.

Framundan eru ýmis stór mál. Rammasamning um almenn skilyrði landbúnaðar er verið að endurskoða og síðan eru stór verkefni í umhverfismálum sem við tengjumst. Halda þarf áfram með markaðssetningarverkefni og svo mætti lengi telja.“

Guðfinna Harpa á þingi sauðfjárbænda fyrir helgi. Mynd: Bændablaðið/SMH

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.