Orkumálinn 2024

Lekavandamál bætast við vandræði Stríðsárasafnsins á Reyðarfirði

Fyrir utan mikið tjón á bröggum Stríðsárasafnsins á Reyðarfirði í óveðrinu í september á síðasta ári hefur mikið lekið inn í sýningarhúsnæði safnsins eftir áramótin og sýningar þess að hluta orðið fyrir tjóni.

Þetta staðfestir Pálína Margeirsdóttir, formaður menningarstofu og safnastofnunar Fjarðabyggðar, sem hvetur til þess að gripið verði til aðgerða til að forða frekara tjóni á þessu þekkta safni. Þegar hefur verið gripið til slíkra aðgerða að sögn upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar.

Pálína segir vandamálið hafa komið í ljós í veðurofsanum sem gekk yfir Austurland í haust sem leið.

„Það má segja að lekavandamál hafi komið fram í óveðrinu í haust og aukist núna eftir áramótin. Safnið er auðvitað allt saman í mjög gömlu húsnæði og viðhaldi sannast sagna verið ábótavant lengi vel. Persónulega lít ég ekki svo á að þar sé áhugaleysi um að kenna heldur frekar hversu mörg önnur brýn verkefni bíða úrlausnar sveitarfélagsins.“

Pálina segir að safnið sé í raun ekkert annað en þeir munir sem þar eru geymdir. Tæknilega geti þeir verið í hvaða húsi sem er og líta verði til þess að vernda þá eins kostur er.

„Það sér hver maður sem hjá gengur að safnið er illa farið og þá sérstaklega þakið. Við þurfum nú með einhverjum hætti að tryggja munina ef ekki er hægt að koma í veg fyrir vatnsvandamál í húsinu og það fyrr en síðar.“

Pálína tekur undir köll margra að nauðsynlegt sé að fara að móta stefnu safnsins til framtíðar og er vel meðvituð um að skiptar skoðanir eru á hvort safnið eigi að vera á sínum stað eða hvort vænlegra sé að búa því stað nær miðbæjarkjarna Reyðarfjarðar. Í ofanálag er núverandi safn of lítið til að hægt sé að sýna alla þá gripi sem safninu hafa áskotnast og aðgengi fyrir rútur og stærri hópa takmarkaðir þar sem það er nú.

„Sjálf vil ég safnið þar sem það er nú en margir eru á annarri skoðun. Þetta þarf að fara að ákveða og ekki hvað síst nú eftir að braggarnir fuku á burt í veðurofsanum í haust. Þeir braggar voru beinlínis minjar út af fyrir sig.“

Að sögn Haraldar Líndal Haraldssonar, upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar, hefur þegar verið gengið frá munum safnsins svo ekki komi til tjóns vegna vatns en einhverjar skemmdir urðu á eftirprentunum af ljósmyndum sem þar héngu uppi.

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur nýverið falið framkvæmdasviði sveitarfélagsins að leggja mat á kostnað við hugsanlega endurbyggingu bragganna. Óljóst er hvenær þeirri vinnu lýkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.