Leitað að loðnu úti fyrir Austfjörðum

Fimm skip leita nú loðnu úti fyrir Austurlandi og Suð-Austurlandi. Fréttir hafa borist af loðnu úti fyrir sunnanverðu landinu en engar staðfestingar borist um að ástandið sé betra en verið hefur.

„Við ætlum að klára svæðið fyrir austan áður en gengur í brælu annað kvöld eða aðfaranótt sunnudags. Síðan tökum við stöðuna með hliðsjón af veðurspám um mælingar fyrir norðan land,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun.

Tvö norsk leitarskip , Roaldsen og Åkeröy, létu úr höfn á Seyðisfirði um hádegi í dag. Þeim er ætlað að leita bæði grunnt og djúpt út af Austfjörðum. „Þau eru til aðstoðar við að þrengja það svæði sem mælingarskipin fara á, með öðrum á svæði sem við teljum litlar líkur að loðna sé á en þurfum samt að skoða.“

Hið grænlenska Polar Amaroq lét úr höfn á Norðfirði seinni partinn í gær og leitar úti fyrir Suð-Austurlandi með Ásgrími Halldórssyni frá Hornafirði og Árna Friðrikssyni, skipi Hafrannsóknastofnunar. „Þau fara skipulega yfir miðin frá Ingólfshöfða og austur úr.“

Þorsteinn segir að borist hafi fréttir frá togurum á hefðbundinni gönguslóð loðnunnar á miðunum úti fyrir Suð-Austurlandi að þeir hafi orðið varir við loðnu. Búið sé að skoða hluta af þeim gögnum og þau verði yfirfarin nánar um helgina. Fylgst sé með öllum fréttum.

Þessu til viðbótar hefur annað skip stofnunarinnar, Bjarni Sæmundsson, skoðað svæðið úti fyrir Vestfjörðum.

Þetta er þriðja umferð loðnuleitar frá áramótum en enn hefur ekki fundist loðna í slíku magni að hægt sé að veita ráðgjöf um veiðar. Þorsteinn segir gott samstarf við útgerðirnar um að leita meðan von sé.

„Það var sameiginleg niðurstaða að gera þetta með þessum hætti. Meðan mælt er og leitað eru meiri líkur á að eitthvað jákvætt komi út heldur en ef heima er setið. Við vinnum í þeim anda, án þess að það séu staðfestingar eða vísbendingar um að ástandið sé betra en við höfum áður sagt.“

Polar Amaroq í Norðfirði. Mynd: Síldarvinnslan/Hlynur Sveinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.