Leita ásjár Hæstaréttar í skotárásarmáli

Landsréttur staðfesti á föstudag átta ára fangelsisdóm yfir Árnmari Guðmundssyni fyrir skotárás á Egilsstöðum í ágúst 2021. Lögmaður Árnmars segir að sótt verði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Landsréttur staðfesti í öllum meginatriðum dóm Héraðsdóms Austurlands síðan í vor. Árnmar var meðal annars ákærður fyrir húsbrot, nokkur vopnalagabrot, brot í nánu sambandi, brot gegn barnaverndarlögum, brot gegn valdstjórninni, hættubrot og eignaspjöll.

Árnmar játaði flest brotanna en mótmælti alvarlegustu atriðunum, það er fyrir tilraunir til manndrápa, annars vegar gegn lögreglufólki í umsátri um húsið sem Árnar réðist inn í í götunni Dalseli, hins vegar gegn húsráðanda þar.

Ótvíræður ásetningur

Landsréttur taldi sannað að Árnmar hefði tekið ákvörðun um að ráða húsráðanda, fyrrum eiginmanni þáverandi sambýliskonu sinnar, bana þegar hann réðist inn í húsið með hlaðin vopn og sýnt þann ásetning ótvírætt í verki.

Það vildi húsráðanda til happs að hann var úti á göngu með heimilishundinn á þessari stundu. Tveir synir hans voru heima og vísaði Landsréttur til framburðar þeirra um að Árnmar hefði verið mjög æstur og klárlega leitað að föður þeirra og spurt eftir honum þegar hann sást ekki. Þá vísar dómurinn hljóðupptöku sem Árnmar sendi sambýliskonu sinni um að hann ætli að „taka hann út.“

Átt að vera hættan ljós

Árnmar hafnaði því einnig að hann hefði ætlað sér að hitta lögreglumann, sem skiptist á skotum við hann í vari bakvið lögregluskjöld framan við lögreglubifreið. Bíllinn var á götunni en Árnar í dyragættinni. Hann hélt því fram að honum hefði orðið bylt við og skotið ósjálfrátt út í loftið.

Við málflutning, bæði fyrir Héraðsdómi og aftur fyrir Landsrétti í byrjun mánaðarins, sótti verjandi Árnmars að lögreglumanninum en framburður hans um hve mörgum skotum var skotið, hver hefði skotið fyrst og hver staðsetning hans var samræmdist ekki tæknigögnum né samræmdist staðsetningin framburði annarra lögregluþjóna á vettvangi.

Lögreglumaður sem sá inn í húsið vitnaði hins vegar gegn því að viðbrögð Árnmars hefðu verið ósjálfráð, hann hefði hlaðið byssuna og lyft henni upp áður en hann skaut í átt að lögregluskildinum. Fleiri lögregluþjónar vitnuðu um að Árnmar hefði verið varaður við að vopnuð lögregla væri mætt á svæðið og hann hvattur til að leggja frá sér vopnið.

Í dómi Landsréttar segir að Árnmari hafi átt að vera ljóst að yfirgnæfandi líkur væru á að líftjón hlytust af þeirri háttsemi að skjóta að lögreglufólki af stuttu færi.

Sækja til Hæstaréttar

Landsréttur staðfesti miskabætur sem Héraðsdómur hafði ákveðið til annars vegar fyrrverandi sambýliskonu Árnmars, upp á 750 þúsund, hins vegar til húsráðanda í Dalseli upp á 2,4 milljónir. Bætur til drengjanna voru hækkaðar um hálfa milljón til hvors, eða 1,5 milljón til hvors þeirra. Í dóminum kemur fram að ljóst hafi verið að þeir hafi óttast mjög um bæði líf þeirra og föðurins, einkum eftir að skothvellir bárust innan úr húsinu en þeir voru þá flúnir út í skóg.

Árnmar þarf enn fremur að greiða fjórar milljónir í áfrýjunarkostnað, þar af málsvarnarlaun verjanda upp á 2,5 milljónir og þóknun réttargæslumanns upp á tæpar 1,3 milljónir. Þetta bætist við tíu milljóna málskostnað sem hann var dæmdur til að greiða fyrir Héraðsdómi. Frá fangelsisdóminum dregst gæsluvarðhald sem Árnmar hefur sætt frá atburðunum í ágúst í fyrra. Fram kom í málflutningnum fyrir Landsrétti að hann hefði verið færður í fangelsið á Kvíabryggju fyrir góða hegðun.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Þórður Már Jónsson, verjandi að Árnmars að verið sé að fara yfir dóminn en ákveðið sé að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Í lögum um Hæstarétt segir að áfrýjunarleyfi ef forsendur áfrýjunar lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um eða dómi Landsréttar stórlega ábótavant eða beinlínis rangur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.