Leitað að veirunni: Vitum ekki hvernig í ósköpunum hún komst inn á búið

egilsstadabylid.jpg
Sérfræðingar eru ráðþrota gagnvart því hvernig herpesveira barst í kýr á Egilsstaðabýlinu. Veiran sjálf er reyndar ófundin og tekin verða nánari sýni úr kúnum til að staðfesta greininguna. Þá verður leitað að henni um allt Austurland. Yfirdýralæknir segir öll smáatriði verða könnuð áður en lagt verður til að lóga öllum gripum á býlinu. Lítil hætta er talin á smiti út frá bænum.

„Okkur ber skylda til að kanna gjörsamlega öll smáatriði og spyrja hvort aðgerðin sé virkilega nauðsynleg áður en við leggjum til niðurskurð á öllum gripum,“ segir Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun (MAST) um þá stöðu sem er upp er komin í kúabúinu á Egilsstöðum.

Þar kom nýlega í ljós smitandi barkabólga/fósturlát í kúm. Búfjársjúkdómar eru flokkaðir eftir alvarleika og er barkarbólgan í A-flokki þar sem eru alvarlegustu sjúkdómarnir. Af öðrum sjúkdómum í flokknum má nefna riðu, miltisbrand, sullaveiki og gin- og klaufaveiki. Venjan hefur verið að lóga öllum gripum á búi þar sem slík veiki kemur upp. Það er hins vegar MAST sem skilar ráðherra tillögu um aðgerðir. „Lögin eru frá 2001 og vísindunum hefur fleygt mikið fram síðan,“ segir Halldór.

Reyndar er það svo að veiran er enn ófundin. Aðeins hefur verið fundir mótefni. Þegar veira eða baktería ræðst inn í líkamann myndar varnarkerfi líkamans átfrumur sem ráðast gegn óværunni. Það er mótefnið.

Smit frá annarri dýrategund?

Að það skuli vera til staðar gefur til kynna að veiran hafi einhvern tíman verið til staðar. „Yfirleitt eru herpesveirurnar bara fyrir hverja dýrategund og fara ekki á milli,“ segir Halldór. Það að komast í snertingu við veiru úr annarri dýrategund getur kallað fram mótefnamyndun. „Það er veikur möguleiki.“

Veiran í kúnum kallast BoHV-1 en í hreindýrum er BoHV-6. Eftir að málið á Egilsstaðabýlinu kom upp voru sýni úr íslenskum hreindýrum frá árinu 2003 send út til að kanna hvort í þeim leyndist hreindýraherpes. Þau voru öll neikvæð. Leitin heldur áfram. Skoðað er hvort veiran finnist í hreindýrum í Noregi þaðan sem íslensku dýrin komu upphaflega.

Leitað á öllu Austurland

Næsta skref er að staðfesta og greina veiruna á Egilsstaðabúinu og kanna hvort hún hafi borist víðar. Stroksýni verða tekin úr jákvæðu gripunum á Egilsstöðum og þau send utan til ræktunar. Niðurstöðurnar úr henni berast ekki fyrr en eftir nokkrar vikur. Það er heldur ekki víst að það skili árangri. „Þetta er þannig sýking að hún getur legið í dvala.“

Á næstu dögum verða tekin mjólkurtanksýni á öllum kúabúum á Austurlandi og búið er að heimsækja nokkra í leit að mótefninu. Halldór segir til skoðunar að taka sýni úr öllum mjólkurbúum á Íslandi „til að fá stöðuna. Er þetta bara þarna eða er þetta víðar?“

Allar smitleiðir langsóttar

Það er fleira sem er óljóst við veiruna á Egilsstaðabýlinu. Einkenni sjúkdómsins eru vanalega augljós. Rautt trýni, minnkandi nytjar, átleysi. Engin einkennanna hafa sést þar. Menn vita ekkert um hvaðan veiran kemur eins og Halldór orðar það: „Við vitum ekki hvernig í ósköpunum þetta kom inn á búið.“

Það er ekki bara hreindýrasmitið sem er fjarlægt. Allar smitleiðir eru ólíklegar. Algengast er að hún smitist með samgangi dýra eða sæði. Innflutningur lifandi dýra og á sæði er bannaður og þar sem veiran hefur ekki áður fundist á Íslandi hefði hún þurft að koma erlendis frá.

Hún finnst ekki á Norðurlöndunum. Næsta land við Ísland þar sem hún lifir er Bretland. Með venjulegu flugi ætti að vera að minnsta kosti sjö tíma ferð þaðan austur í Egilsstaði. Ferð frá sýktu svæði með Norrænu tæki nokkra daga.

Veiran er veikbyggð og lifir ekki utan hýsils. „Það er misjafnt eftir aðstæðum en getur talist í dögum.“ Halldór telur „mjög langsótt“ að veiran hafi borist með mönnum eða verkfærum. „Það er ekki hægt að útiloka hana en þetta er ekki þekkta leiðin.“

Fordæmi eru fyrir að veiran birtist eins og þruma úr heiðskýru lofti. Starfsmönnum Matvælastofnunar bárust í gær upplýsingar frá Noregi þar sem jákvæð svörun fannst árið 1992 við mótefnaleit á kúabúi á eyju rétt utan Björgvin. Þar var öllum gripunum lógað og aldrei fannst hvaðan veiran kom. „Það er til í dæminu að þetta kemur út úr buskanum.“

Lítil hætta á útbreiðslu

Lítil hætta er talin á að veiran breiðist út frá Egilsstaðabýlinu, sérstaklega í ljósi þess að útbreiðsla veirunnar þar er takmörkuð. Mótefnið greindist mest í eldri kúm, fimm ára og eldri. „Þetta bendir til þess að þetta sé eitthvað sem gerðist fyrir nokkrum árum. Að þetta hafi ekki breiðst út innan býlis bendir til þess að þetta hafi ekki verið mikið í gangi allra síðustu ár.“

Veiran getur legið í dvala sem gerir enn erfiðra að finna hana og greina. Þetta þýðir samt að varnaraðgerðirnar eru enn vægar. Sala lífdýra er bönnuð en býlið framleiðir enn afurðir. „Við höfum breytt rútínunni, til dæmis að mjólkurbíllinn og sæðingamenn komi síðast við á býlinu í sínum rúnti.“

Stór ákvörðun að fara í niðurskurð

Fulltrúar Matvælastofnunar stefna á að koma austur í vikunni og halda fund, í samvinnu við Búnaðarsamband Austurlands til að fara yfir málið og svara spurningum. Þær eru margar sem brenna á mönnum. 

Á meðan verður leitað að veirunni. „Á býlinu eru um 300 gripir og það er mjög stór ákvörðun að fara í niðurskurð. “

Ekki þyrfti samt að bíða lengi ef bóndinn vildi taka kýr á ný, ólík þar sem sauðfjárriða greinist og býli skulu vera fjárlaus í tvö ár. „Það væri frekar í vikum talið sem yrði nautlaust en það tæki bæinn langan tíma að komast upp í sömu afurðaframleiðslu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.