Leikskólinn Tjarnarland lokaður á morgun

Ákveðið hefur verið að hafa leikskólann Tjarnarland á Egilsstöðum lokaðan á morgun í öryggisskyni meðan náð er utan um Covid-smit sem greindist þar í gærkvöldi. Aðgerðastjórn segir stöðu faraldursins eystra áhyggjuefni.

Eins og Austurfrétt greindi frá í dag reyndist barn á leikskólanum smitað. Deildin, sem það er á, var lokuð í dag.

Eftir fund aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands í dag var ákveðið að loka öllum deildum skólans á morgun. Í tilkynningu aðgerðastjórnar eru starfsmenn, foreldrar og forráðamenn barna á leikskólanum sökum hvattir til að skrá sig og börn sín í sýnatöku á morgun.

Skráning í sýnatökuna fer fram á www.heilsuvera.is. Aðrir sem telja sig mögulega útsetta fyrir smiti eru og hvattir til að fara í sýnatöku.

Fjögur Covid-19 smit voru staðfest á Austurlandi í morgun, þar af tvö utan sóttkvíar. Annað þeirra var smitið á leikskólanum, hitt hjá starfsmanni Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, eins og Austurfrétt hefur áður greint frá. Í tilkynningu aðgerðastjórnar kemur fram að smitrakning standi yfir.

Þar segir að staða Covid-faraldursins á Austurlandi sé nokkuð óvenjuleg. Töluvert greinist af smitum vítt um fjórðunginn, sem sé áhyggjuefni.

Af þessum sökum eru íbúar hvattir til sérstakrar varkárni, hvattir til að huga vel að persónubundnum smitvörnum og gæta vel að sér í margmenni. Þá er athygli stjórnenda vinnustaða og félagasamtaka vakin á þessari stöðu og þeir hvattir til að huga vel að ráðstöfunum til að koma í veg fyrir smit innan þeirra raða.

Að endingu eru íbúar sem fyrr hvattir til að fara í PCR sýnatöku finni þeir til minnstu einkenna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.