Leggja til minni veiðar á hreindýrum á næsta ári

Náttúrustofa Austurlands (NA) leggur til að töluvert færri hreindýr verði felld á næsta ári en heimilt var að veiða á yfirstandandi ári.

Þetta kemur fram í fyrstu tillögum stofnunarinnar um hreindýrakvóta næsta árs en endanlegar tillögur verða ekki lagðar fram fyrr en í desember. Tillögurnar gera ráð fyrir að veidd verði níu prósent færri dýr 2022 en þetta árið

Ástæða þess að NA vill minnka veiðar er að samkvæmt talningum eftirlitsmanna virðist hreindýrastofninn vera nokkuð minni í heildina en áætlun þessa árs tók mið af eða um fjórtán prósent færri dýr alls. Ekki hafi verið hugmyndin með tillögum síðasta árs að fækka í hreindýrastofninum sem allt bendir þó til að hafi orðið raunin.

Lægri stofnstærðaráætlun fyrir næsta ár skýrist af nokkrum þáttum. Breytt svæðisnotkun hópa á síðustu árum hefur leitt til aukinnar óvissu um fjölda dýra og ferðir þeirra milli ákveðinna veiðisvæða. Slík óvissa torveldar alla áætlunargerð og eykur líkur á of- eða vanmati í fjölda dýra. Allt bendi til að fjöldi dýra á ákveðnum veiðisvæðum hafi verið ofmetin og kvóti því verið of hár.

Kalla eftir samráði

Að þessu sinni bryddar stofnunin upp á þeirri nýbreytni að kynna tillögur sínar fyrirfram og með rökstuðningi en hugmyndin er að hafa ákvörðunarferlið gegnsærra og opnara og gefa einstaklingum færi á að koma með athugasemdir áður en endanlegar tillögur verða sendar Umhverfisstofnun.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.