Langeldur fannst í eldri skálanum að Stöð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. jún 2023 13:51 • Uppfært 26. jún 2023 14:03
Fornleifafræðingarnir, sem vinna að uppgreftri landsnámsminja á jörðinni Stöð í botni Stöðvarfjarðar, fundu fyrir helgina langeld í rústum í því sem er talinn vera eldri skálinn á staðnum. Fyrr í mánuðinum fannst þar fyrsta bátateikning sem vitað er um hérlendis frá landsnámstímanum.
Fornleifauppgröfturinn hefur snúist um tvo víkingaaldarskála sem byggðir eru nokkurn vegin hvor ofan á öðrum. Eldri skálinn er talinn vera frá því um 800-870 en sá yngri reistur skömmu síðar.
Langeldurinn sem kom í ljós á föstudagsmorgunn er innan eldri skálans. Tilkoma hans er staðfesting á veru manna í byggingunni.
„Það er hæpið að tala um skála ef ekki er langeldur þar. Þar með er myndin fullkomnuð og staðfest að þetta hafi verið híbýli manna,“ segir dr. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, sem stýrir uppgreftrinum.
Hann telur eftir sem áður að eiginlegt landnám, búseta allt árið, hefjist með yngri skálanum. Í þeim eldri hafi verið árstímabundin viðvera og ekki eiginlegur búskapur.
Elsta teikning Íslands
Grafið hefur verið að Stöð í um mánuð á hverju sumri frá 2016. Vel hefur gengið í sumar því veðrið hefur aldrei verið betra á þessum tíma. Síðasta vikan þetta sumarið stendur nú yfir. Að vanda hefur ýmislegt markvert komið í ljós. Fyrr í mánuðinum fannst það sem virðist vera mynd af víkingaskipi rissuð í rauða sandstein.
„Hún fannst undir eða í eldri skálanum. Það þýðir að hún er frá hans allra fyrstu tíð og þar með elsta mynd sem til er á Íslandi. Elsta myndin áður teljum við vera riss á steini frá Ísleifsstöðum í Borgarfirði fyrir vestan.
Í hana er erfitt að ráða en þetta virðist klassísk skipamynd. Það er töluvert um þær á hinum Norðurlöndunum en þetta er sú eina sinnar tegundar á Íslandi. Fyrir nokkrum sumrum fundum við stein í yngri skálanum með kroti, geómetrísku mynstri, og svo höfum við séð fleiri gripi með smákroti.“
Þá fannst í síðustu viku 200. perlan að Stöð. „Þetta er langríkasti uppgröfturinn hérlendis þegar kemur að hlutum eins og silfri, blýi, perlum, brýnum og snældusnúðum, svo ekki sé minnst á hluti sem ekki hafa fundist annars staðar svo sem skífur og jaspísar,“ segir Bjarni.
Ekkert fundist í kring
Við upphaf rannsóknanna í sumar komu breskir sérfræðingar með jarðsjá til að skoða svæðið í kring í leit að frekari minjum. Athuganir þeirra gáfu til kynna að þar væri jafnvel að finna báta og fleiri hús. Ekkert fannst við nánari skoðun á þeim svæðum en Bjarni bindur enn vonir við að í ljós komi bátalægi eða sem flutt hafi fólk að Stöð og verið notað.
„Á jarðsjánni komu fram skipslaga skuggar. Við höfum tekið þverskurði á því svæði og komist að því að jarðsjáin hafi sýnt okkur jarðfræði en ekki menningarminjar. Það er búið að leita á þeim svæðum sem skoðuð voru en við náðum ekki að kanna allt sem við vildum með sjánni svo það eru enn eftir staðir sem bíða betri tíma.“
Mynd af langeldi: Bjarni F. Einarsson
Mynd af bátsrissu: Björgvin Valur Guðmundsson
