Orkumálinn 2024

Landsréttur staðfesti fjögurra mánaða nálgunarbann

Landsréttur staðfesti skömmu fyrir jól dóm Héraðsdóms Austurlands sem dæmt hafði karlmann í fjögurra mánaða nálgunarbann fyrir að hafa falsað aðganga á Facebook og notað þá til að senda fyrrum sambýliskonu sinni og börnum hennar skilaboð meðan hann sætti nálgunarbanni.

Stuttri sambúð parsins lauk haustið 2021 en manninum var síðasta sumar gert að sæta rúmlega tveggja mánaða nálgunarbanni. Á meðan því stóð sendi hann konunni og einu barna hennar þó samanlagt 19 skilaboð í þrjú skipti. Til þess á hann að hafa búið til aðganga undir fölskum nöfnum.

Fór hún því fram á nýtt nálgunarbann þegar hið fyrra rann út í byrjun október. Þótt í lögum segi að lögreglustjóri skuli slaka slíka kröfu fyrir eigi síðar en innan þriggja daga dróst það fram til 25. nóvember. Í úrskurði Landsréttar segir að slík töf þýði þó ekki að málinu sé vísað frá.

Við fyrstu yfirheyrslu neitaði maðurinn að hafa sent skilaboðin þótt hann hefði sent rafræn skeyti undir fölskum nöfnum í vímu. Hann ræddi aftur við lögreglu að lokinni vímuefnameðferð í byrjun nóvember og sagðist þá vilja gera hreint fyrir sínum dyrum. Sagði hann þar að skilaboðin væru líklega frá honum komin þótt hann myndi það ekki fullkomlega vegna þeirrar vímu sem hann hefði verið í.

Fyrir dómi vildi maðurinn draga framburð sinn til baka að hluta. Hann sagðist hafa játað atriði í von um að lögreglurannsókninni lyki þar með og hann hefði gert það undir tilteknum þrýstingu frá lögreglumönnum sem hann hefði leitað ráða hjá og vonast til að það yrði talið honum til tekna síðar. Þar játaði maðurinn að eiga tvo aðganga að samfélagsmiðlinum en neitaði að hafa búið til nýja. Hann sagðist hvorki eiga minningar um skeytasendingarnar né hafa fundið ummerki um þau í síma sínum.

Héraðsdómur Austurlands taldi skýringar mannsins á hegðun sinni haldlausar. Var hann því úrskurðaður í fjögurra mánaða nálgunarbann og má ekki nálgast heimili, dvalarstað eða vinnustað hennar né barna hennar, senda þeim skeyti eða nálgast á almannafæri. Fyrir dóminum lá vitnisburður félagsþjónustu um að skeytasendingar mannsins hefðu haft alvarleg áhrif á hana og truflað bæði einkalíf og vinnu. Sem fyrr segir staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms.

Málskostnaður, alls 700.000 fyrir dómsstigunum tveimur, hefur verið felldur á ríkissjóð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.