Landhelgisgæslan sótti sjómann sem veiktist úti fyrir Austfjörðum
Þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar sóttu í gærkvöldi veikan sjómann um borð í erlendan togara úti fyrir Austfjörðum. Þyrlan var á Egilsstaðaflugvelli í nótt.
Beiðni um aðstoð barst frá skipinu um klukkan fimm í gærdag. Skipið var þá statt um 140 sjómílur austur af Glettingi.
Þyrlan fór í loftið og lenti á Egilsstaðaflugvelli á áttunda tímanum til að taka eldsneyti. Flugvél gæslunnar var einnig ræst út til aðstoðar. Hún flaug á undan til að finna hentuga flugleið og stað til að hífa skipverjann upp, en aðstæður voru erfiðar vegna myrkurs og þoku.
Aðgerðin gekk þó vel og skipverjinn var hífður um borð um 90 sjómílur austur af landinu. Þyrlan flutti hann til Egilsstaða og lenti þar um klukkan tíu í gærkvöldi. Þar var sjúklingurinn færður yfir í flugvélina sem flaug áfram til Reykjavíkur með manninn á Landspítalann.
Þyrlan var svo á Egilsstöðum í nótt þar sem komið var að lögboðnum hvíldartíma áhafnarinnar.