Orkumálinn 2024

Lakari rekstur Múlaþings en ráð var fyrir gert skrifast að mestu á verðbólgu

Rekstrarafkoma samkvæmt samstæðureikningi sveitarfélagsins Múlaþings á síðasta ári reyndist neikvæð um 76 milljónir króna eða 141 milljón krónum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Aukinni verðbólgu er að mestu um að kenna.

Staðfestur ársreikningur sveitarfélagsins fyrir liðið ár var opinberaður í dag og stóðst ekki fyrirfram gerðar áætlanir fyrir það ár. Var gert ráð fyrir 65 milljóna króna rekstrarafgangi í samstæðureikningi sem ekki gekk eftir og þá var hallinn á A-hluta sveitarfélagsins 346 milljónum króna meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Til A hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum meðan að B hlutinn telur fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem eru að minnsta kosti í hálfri eigu eða meirihlutaeigu sveitarfélagsins.

Þá hækkuðu skuldir og skuldbindingar A- og B hluta Múlaþings milli ára um rétt tæpan einn og hálfan milljarð króna og stóð í alls 12,3 milljörðum króna í lok síðasta árs. Það þýðir að skuldaviðmið sveitarfélagsins á þeim tíma var 109 prósent en slíkar skuldir mega ekki nema meira en 150 prósent af reglulegum tekjum.

Aðrar lykiltölur:

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og tekjuskatt (EBITDA) í samstæðureikning var jákvæð um tæplega 1,2 milljarða króna. Fjármagnsgjöld námu alls 849 milljónum kr. í samstæðu A og B hluta en samanlögð fjárhagsáætlun gerði þar ráð fyrir 470 milljónum króna.

Veltufé frá rekstrinum 2022 nam rétt rúmlega milljarði króna í A og B hluta. Eigið fé Múlaþings var jákvætt í árslok um 2.772 milljónir í samstæðu A- og B hluta að teknu tilliti til hlutdeildar minnihluta. Eigið fé A hluta var jákvætt um 799 millj. kr. í árslok 2022.

Það er sökum þessarar lakari niðurstöðu á síðasta ári sem sveitarstjórn skoðar nú hvort nauðsynlegt verði að skera niður í framkvæmdum sem áætlaðar voru hjá Múlaþingi á yfirstandandi ári en verðbólga hefur eðli máls samkvæmt mikið áhrif til hækkunar á vörum og þjónustu og hún verið í eða yfir 10 prósentum síðan í júlí síðastliðnum.

Nýr leikskóli í Fellabæ sem opnaður var síðla síðasta haust var ein af fjárfestingum Múlaþings sem reyndist kostnaðarsamari en ráð var fyrir gert. 384 milljónir króna voru áætlaðar í verkefnið 2022 en reyndist vera 610 milljóna króna fjárfesting þegar upp var staðið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.