Lágir opinberir styrkir teknir fyrir á fundi með stýrihópi um byggðamál

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál, oftast kölluð sóknarnefndin, heimsótti Austurland í byrjun vikunnar. Hópnum er ætlað að fylgjast með framgangi sóknaráætlana landshlutanna. Dreifing opinberra styrkja um landið var meðal þess sem rætt var á fundinum.

Hópurinn fundar árlega með hverjum landshlutasamtökum sveitarfélaga. Í ár fer hópurinn á Austurlands og Vesturland en hittir önnur landshlutasamtök á fjarfundi.

Á fundinum í Neskaupstað á mánudag komu saman fulltrúar frá átta ráðuneytum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnun. Á móti hópnum tóku framkvæmdastjóri og yfirverkefnastjórar Austurbrúar en með þeim voru einnig formaður og varaformaður Austurbrúar/Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Á fundinum var meðal annars farið yfir Sóknaráætlun Austurlands, vinnulag við Uppbyggingarsjóð Austurlands og nokkur áhersluverkefni kynnt, þar með talið svæðisskipulag Austurlands.

Þá var rætt um hversu treglega gengur fyrir einstaklinga og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins að sækja um og fá opinbera landsdekkandi styrki, ekki síst hjá Rannís og rætt um reiknireglu framlaga til sóknaráætlana, að því er fram kemur í tilkynningu.

Fundurinn var haldinn í Múlanum, samvinnuhúsi í Neskaupstað, sem er nýuppgert. Heimsóknin var nýtt til að kynnast starfsemi í húsinu. Sérstakar kynningar voru frá Náttúrustofu Austurlands og alþjóðlega fyrirtækisinu Nox Health.

Loks heimsótti hópurinn fyrirtækið Tandrabretti ehf. í Neskaupstað og fræddist um starfsemi þess, en fyrirtækið hefur hlotið styrk úr uppbyggingarsjóði Austurlands.

Mynd: Stjórnarráðið

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.