Lægri gjaldskrár eða meiri þjónusta?

Meirihluti Fjarðalista og Framsóknarflokks í bæjarráði Fjarðabyggðar fellst ekki á tillögur Sjálfstæðisflokks um breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2019. Flokkurinn vill lækka fasteignamatsstuðul, lækka gjaldskrá hitaveitu og fallið verði frá lækkunum á skólamáltíðum. Meirihlutinn segir markmið sitt að auka þjónustu við íbúa.

Þetta kemur í bókunum sem lagðar voru fram á fundi bæjarráðs í gær en þær voru teknar fyrir tillögur Sjálfstæðisflokksins í kjölfar fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun.

Tillögurnar skiptast í þrjá liði. Í fyrsta lagi er lagt til að fasteignamatsstuðull verði lækkaður úr 0,5% í 0,438% auk þess sem holræsa- og vatnsgjöld verði lækkuð um samtals átta milljónir. Fulltrúar flokksins hafa bent á að hækkandi fasteignamat þýði að fasteignaeigendur í sveitarfélaginu greiði umtalsvert meira af eignum sínum en áður.

Hvort sveitarfélög fullnýti tekjustofna sína hefur áhrif á framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vísa í minnisblað fjármálastjóra um að breytingarnar sem þeir leggi til hafi óveruleg áhrif.

Í gagnbókun meirihlutans segir að samspil fasteignaskatta og framlaga úr sjóðnum skipti miklu um tekjur sveitarfélagsins. Þar kemur fram að hækkuninni sé svarað með að hækka tekjuviðmið fasteignaskatts þannig að afsláttur á fasteignasköttum nýtist fleirum en áður og hópum eins og öldruðum, öryrkjum og barnmörgum fjölskyldum. Nauðsynlegt sé þó að greina frekar hækkun fasteignastofnsins og óskar eftir aðkomu Þjóðskrár Íslands að slíkri vinnu á næsta ári.

Þörf á fjárfestingum í Hitaveitu

Í öðru lagi leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að gjaldskrá Hitaveitu Fjarðabyggðar lækki um 5%. Þar með er fylgt eftir bókun sem flokkurinn lagði fram fyrr í haust þar sem óskað var eftir rekstrarúttekt á veitunni í ljósi þess að margir notendur hefðu fengið háa bakreikninga. Auk þess var óskað að flýtt yrði að skipta rennslismælum út fyrir kílóvattsmæla.

Þá lýsti meirihlutinn furðu sinni á bókuninni og minnt á úttekt sem unnin hefði verið árið 2016, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í meirihluta. Verið væri að skoða tilvik sem þættu óvenjuleg við síðasta álestur en að öðru leyti vísað á fjármálasvið sveitarfélagsins ef viðskiptavinir teldu reikninga sína ekki rétta.

Í bókun meirihlutans frá í gær segir að ljóst sé að ráðast þurfi í fjárfestingar hjá veitunni á næsta ári, þar á meðal að skipta úr mælunum, hefja niðurdælingu og reisa jöfnunartank. Hitaveitan þurfi að standa undir sér með notendagjöldum og raunlækkun gjaldskrár hennar um síðustu áramót hafi verið 7%.

Kljást um skólamáltíðir

Í þriðja lagi leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að horfið verði frá 33% lækkun á máltíðum í skólum Fjarðabyggðar. Flokkurinn hefur varað við að hugmyndir um gjaldfrjálsar skólamáltíðir þýði tæplega 100 milljóna útgjaldaaukningu árlega.

„Lækkun á álagningarstuðli á íbúðarhúsnæði og holræsa- og vatnsgjöldum er innan við helmingur heildaráhrifa útgjaldaaukningar vegna skólamáltíða en aðgerð sem gagnast öllum íbúum sveitarfélagsins. Enda í stað þess að sækja enn frekari hækkanir til íbúanna og úthluta til sumra þá njóta allir þess að álögur eru ekki hækkaðar,“ segir í bókuninni.

Meirihlutinn hafnar tillögunni og bætir við að hún virðist helsta stefnumál flokksins í sveitarfélaginu. Meirihlutinn segir lækkunina leið til að jafna stöðu barna og lækka um leið álögur á barnafjölskyldur. Lækkunin sé einnig liður í að hækka ekki gjaldskrár í leik- og grunnskólum.

Óvissa um tekjustofna

Í heild segist meirihlutinn hafna tillögum Sjálfstæðisflokks þar sem þær gangi þvert á stefnu meirihlutans sem hafi lagt fram metnaðarfullan málefnasamning með skýrum áherslum um að auka þjónustu við íbúa og styrkja stoðir samfélagsins. Til þess þurfi ábyrga fjármálastjórn og þess vegna sé hafnað tillögum sem stefni tekjustofnun í óvissu.

Í bókun Sjálfstæðisflokksins er varað við óvissu í þjóðarbúskap vegna spáa um aukna verðbólgu, titrings á vinnumarkaði og óvissu um fiskveiðar sem hafi áhrif á tekjur sveitarfélagsins. Þess vegna sé mikilvægt að stíga varlega til jarðar í að auka útgjöld og hvatt til þess að bæjaryfirvöld gæti hófs við að sækja enn dýpra í vasa skattgreiðenda.

Lýst er vonbrigðum með að meirihlutinn vilji ekki skapa sátt um fjárhagsáætlunina. Meðan mörg önnur sveitarfélög lækki fasteignaskatta ætli meirihlutinn að sækja alla fasteignamatshækkunina til íbúa sem komu ekki síst harðast niður á barnafjölskyldum.

Fjárhagsáætlun verður tekin til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 29. nóvember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.